Mary Oliver, skáld (1935-2019)

Tunglið braust inn í húsið

Gengið heim frá Eikarhöfða

Það er eitthvað við himininn
    á veturna, þegar snjókoma
         er í aðsigi síðla dags

sem færir hjartanu upphafningu
      og indælt tilgangsleysi
          tímans.
               Hvenær sem ég kemst heim - hvenær
               sem það verður - 

er þar einhver sem elskar mig.
     Þangað til
         stend ég í skuggsælum friði
            á sama hátt og furutrén við hlið mér.

eða reika hægt um
        einsog hæglátur vindurinn,
            bíð átekta,
            einsog eftir gjöf,

að það fari að snjóa
       sem það gerir
         fyrst strjált
           síðan viðstöðulaust.

Hvar sem ég annars bý -
     í tónlist, í orðum,
       í eldum hjartans,
         dvel ég jafn djúpt

á þessum nafnlausa, ódeilanlega stað
        í þessum heimi,
            sem er að greiðast í sundur,
                   sem er hvítur og óhaminn,

sem er trúr umfram allar yfirlýsingar um trú,
      ofar okkar dýpstu bænum.
           Engar áhyggjur, fyrr en síðar kemst ég heim.
           Með roða í kinnum af vindinum sem hefur
           færst í aukana

ég stend í dyragættinni
       stappa mjöll af stígvélunum og slæ saman
höndum,
         herðarnar
                þaktar stjörnum.

Mary Oliver (1935-2019)
Þýðing: Gyrðir Elíasson.

Ljóðið birtist í ljóðasafninu Tunglið braust inn í húsið, frá árinu 2011. Safn ljóðaþýðinga eftir Gyrðir Elíasson sem óhætt er að mæla með.
Mary Oliver er meðal virtustu ljóðskálda í  Bandaríkjunum. Í þessu ljóðasafni sem valið er og þýtt af skáldinu Gyrði má einnig finna eitt þekktasta ljóð hennar, Villigæsir. En í safninu eru ljóð eftir 36 skáld víðsvegar úr heiminum. Elsta skáldið í safninu er kínverska skáldið Tao Tsien frá fjórðu öld, en það yngsta, bandaríska skáldið Jane Hirshfield, er fædd 1953. Í safninu eru þýðingar á ljóðum eftir m.a. Elisabeth Bishop, Anne Sexton, Alice Walker, Bertolt Brecht.

 

Flokkur
UppfærtFimmtudagur, 9. desember, 2021 14:24
Materials