Ljóðaslamm 2014
Ljóðaslamm 2014

Ljóðaslamm 2014

Þema: Af öllu hjarta

Sjöunda ljóðaslamm Borgarbókasafns var haldið í sjöunda skipti á Safnanótt, föstudaginn 7. febrúar 2014. Þema keppninnar var „af öllu hjarta“.

Keppnin var að venju haldin á aðalsafni Borgarbókasafns, Tryggvagötu 15.

Alls kepptu tíu atriði til sigurs, og hver hópur, hvert tvíeyki og hver einstakur slammari nálgaðist þema kvöldsins með sínum hætti – og með sinni eigin frjálsu aðferð. Fimm manna dómnefnd valdi þrjú bestu atriðin. Í henni sátu fyrir hönd Borgarbókasafns María Þórðardóttir leikkona og fyrir hönd Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO Davíð Kjartan Gestsson bókmenntafræðingur. Auk þeirra Andri Már Enoksson tónlistarmaður, Bragi Ólafsson rithöfundur, og Ragnheiður Eiríksdóttir tónlistarkona og formaður dómnefndar. Kynnir kvöldins var Anna Svava Knútsdóttir.

Í dómarahléi spiluðu sigurvegarar slammsins árið 2013, hljómsveitin Kælan mikla. Kælan var stofnuð til þátttöku í þeirri keppni, og fagnaði því svo að segja eins árs afmæli um leið.

 

Í fyrsta sæti var Engjahlauparinn eftir Brynjar Jóhannesson. Brynjar braust um í afmörkuðum ramma stóls þess, sem hann settist á í byrjun atriðisins, en að mati dómara var textinn skýr og spennandi og öryggi í flutningnum, og þegar leið á atriðið byggðist upp spenna sem hreif alla með sér.

 

Í öðru sæti var atriðið Pungur Silungs, en þar voru hnefaleikar og ljóðlist sameinuð á afar nýstárlegan máta. Flytjendurnir voru þau Aron Daði Þórisson og Marína Gerða Mantel, og Marína lét höggin dynja af fullum þunga á Aroni á meðan hann flutti ljóðið.

 

Í þriðja sæti var Guðný Þóra Guðrúnardóttir, hún sagði sögu af heimsókn í Anne Frank safnið í Amsterdam og vann áhorfendur og dómnefnd á sitt band með einlægnina að vopni.

 

Aðrir keppendur voru þau Jóhann Björnsson og kompaní, sem fluttu atriðið Fyndið / dapurt; Valgerður Þóroddsdóttir og ókynntur harmonikkuleikari sem fluttu Borgarbrim; Eðvarð Freyr Ingólfsson og félagar áttu atriðið Vonlaus rómantík; Ágúst Már Guðjónsson flutti Nágrannastelpuna; þríeykið Veirumenn fluttu atriðið Veirumenn í G, fyrsti þáttur: 600 bar; Arnór Stefánsson flutti ljóðið Hversdagslegar hugsanir undir eigin gítar- og munnhörpuleik; og síðastur á svið var Bragi Björn Kristinsson með ljóðið Andskotans óður.

Flokkur
Merki
UppfærtFöstudagur, 2. september, 2022 13:22