Ung, há, feig og ljóshærð | Verk Auðar Haralds skoðuð í ljósi kvenréttinda
LÆSI Á STÖÐU OG BARÁTTU KVENNA | Samstarfsverkefni almenningsbókasafna um land allt í tilefni Kvennaárs 2025
Bókasafnasjóður veitti styrk til verkefnisins.
__________________________________________________________
Hlaðvarpið Myrka Ísland tók sér hlé frá hinum hefðbundnu viðfangsefnum um hörmungar og morð og brá sér í feminískan búning. Við tókum upp hlaðvarpsþátt með áhorfendum í notalegri stemningu í Safnahúsi Borgarfjarðar. Þar sagði Sigrún Elíasdóttir Önnu Dröfn Sigurjónsdóttur frá verkum og ævi stórmeistarans Auðar Haralds.
Skáldkonan Auður Haralds skrifaði ekki aðeins sprenghlægilegar bækur fyrir börn og fullorðna, heldur voru þær iðulega með mjög beittum tón og gagnrýnar á samfélagsgerðina, ekki síst feðraveldið. Hún var þekktust fyrir kaldhæðnar lýsingar á mönnum og málefnum, sem stundum féllu í grýttan jarðveg samtímans. Ekki síst vegna þess að hún nýtti húmorinn óspart til að gera grín að ýmsum samfélagsmeinum sem sérstaklega snéru að konum og heimilinu.
Bókmenntir seinni hluta áttunda áratugarins fjölluðu einkum um samfélagið á raunsæjan hátt. Nýraunsæið náði verulegu flugi árið 1977 og bækur skrifaðar sem fjölluðu um einkalífið, sérstaklega einkalíf kvenna og raunir þeirra. Þessar bækur sýndu ekki heildræna lýsingu á samfélaginu enda var það ekki markmiðið. Bækurnar voru vitnisburður en ekki greining. Lýsingar á raunveruleika kvenna en ekki pólitískar stefnur eða stefnumál. Bækur Auðar voru klárlega af þessari tegund, hún var að segja frá persónulegri reynslu, ekki skrifa fræðigreinar eða að koma með lausnir á vandanum.
Fyrir þetta, varð hún fyrir talsverðri gagnrýni og jafnvel aðkasti fyrir vikið. Hvers vegna hún væri að ræða sín einkamál og jafnvel barna sinna. Hún þurfti að taka við mikilli ómaklegri gagnrýni og áreitni vegna skrifa sinna og skoðana. Af þeirri einu ástæðu að hún var kona, átti hún ekki að gera eða segja þetta eða hitt.
Auður var fædd 1947 og á árunum sem hún var að vaxa úr grasi og fullorðnast var mikið að gerast í réttindamálum kvenna og baráttan hörð. Og þótt Auður sjálf tæki engan þátt í pólitískum samtökum, var hún mikill jafnréttissinni. Þær bækur Auðar sem eru hvað áhugaverðastar í þessu samhengi kvennabaráttunnar er annars vegar Hvunndagshetjan frá 1979, þar sem Auður skrifar um uppvöxt sinn á 6. og 7. áratugnum og líf hennar sem einstæða móður þriggja barna sem býr við fátækt og jafnvel stundum heimilisofbeldi. Og svo hins vegar Læknamafían frá 1980, þar sem sama einstæða móðirin berst við heilbrigðiskerfi sem neitar að hlusta á hana.
Báðar þessar bækur eru mjög fyndnar en um leið hræðilega tragískar. Ekki aðeins fyrir það sem þær segja frá fortíðinni, heldur líka vegna þess að mörgum áratugum síðar erum við að glíma við sömu ömurlegu vandamál í okkar frábæra jafnréttisríki í dag. Eins og fátækt einstæðra mæðra, fordóma í garð þeirra í félagslega kerfinu, heimilisofbeldi og léleg þjónusta við konur í heilbrigðiskerfinu.
Þegar Hvunndagshetjan var endurútgefin í kringum aldamótin, þótti Auði það ekki ástæða til að fagna. Hún skrifaði í eftirmála bókarinnar. „Að hún kemur yfirhöfuð út aftur, sýnir ekki hvað okkur þykir vænt um fornmuni. Heldur að þó breytingar hafi orðið, þá hafa ekki orðið nægar breytingar. Það hryggir mig að það er hægt að endurútgefa hana. Auður Haralds.“
Hlaðvarpsþáttinn “Ung, há, feig og ljóshærð” er hægt að hlusta á undir merkjum Myrka Íslands á Storytel og Spotify.
Hér má hlusta á þáttinn á Spotify
Hér má hlusta á þáttinn á Storytel
Sigrún Elíasdóttir