Hallgerður Langbrók er í uppáhaldi!

Hallgerður Langbrók bar sigur úr býtum í fyrsta Persónuleik Borgarbókasafnsins sem fór fram á Instagram síðunni okkar í síðastliðnum mánuði. Keppinautar Hallgerðar voru ekki af verri endanum; Gandálfur, Emil í Kattholti, Fíasól, Hedwig, Bridget Jones, Edda Jónínu Leós, Karítas án titils og mörg fleiri. 

Hallgerður Langbrók er ein aðalpersóna Brennu- Njáls sögu og er henni lýst svo: „Nú er þar til máls að taka að Hallgerður vex upp, dóttir Höskulds, og er kvenna fríðust sýnum og mikil vexti og því var hún langbrók kölluð. Hún var fagurhár og svo mikið hárið að hún mátti hylja sig með. Hún var örlynd og skaphörð.“

Hallgerður og Gunnar á Hlíðarenda ganga í hjónaband og er Hallgerður einn helst hvati þeirra atburða sem eiga sér stað í Njálu. Hún er að mörgu leyti einstök kvenpersóna Íslendingasagna en hlutverk hennar hefur á undanförnum áratugum verið dregið betur fram í sviðsljósið af fræðimönnum dagsins í dag. Þar hefur bókmenntafræðingurinn Helga Kress verið hve ötulust.

Brennu-Njáls saga er ein sú vinsælasta í flokki Íslendingasagna og lifir góðu lífi í þjóðarminni Íslendinga. Bókin er kennd í framhaldsskólum er og er innblástur ótal listaverka og endurgerða. Þá var leikgerð sett upp í Borgarleikhúsinu árið 2016 eftir Mikael Torfason og Þorleif Örn Arnarson og Borgarbókasafnið og Gagarín settu upp gagnvirka innsetningu, "Ertu alveg viss? | Stutt innlit í Brennu-Njáls sögu" í Grófinni í janúar 2019 í samstarfi við þrjú bókasöfn í Kaupmannahöfn. Í tengslum við innsetninguna skapaði listamaðurinn Kristín Ragna Gunnarsdóttir myndir úr Njálu sem enn má sjá við innganginn í Grófinni. 

 

 

Flokkur
Merki
UppfærtÞriðjudagur, 9. júlí, 2024 10:42
Materials