
David Szalay hlýtur Booker-verðlaunin fyrir skáldsöguna Flesh
David Szalay hlýtur Booker-verðlaunin í ár fyrir sjöttu skáldsögu sína, Flesh, sem lýsir lífi Istváns sem í upphafi sögunnar er 15 ára unglingspiltur sem býr einn hjá móður sinni í ungversku blokkarhverfi. Síðar er István sendur á uppeldisheimili í Ungverjalandi, gegnir herþjónustu í Írak og starfar sem lífvörður hinna ofurríku í London. Á lífsleiðinni safnar hann miklum auðævum en tapar þeim aftur.
Að mati dómnefndar er bókin hrífandi og spennandi frásögn sem spyr lesendur hvað geri lífið þess virði að lifa. Formaður dómnefndar, rithöfundurinn Roddy Doyle, segir bókina ennfremur ólíka nokkurri annarri sem hann hefur lesið, ekki síst vegna aðalpersónurnar Istvans, sem hljóti að teljast ein fámálasta sögupersóna sem um getur.
Szalay er fyrsti ungversk-breski rithöfundurinn til að hljóta Booker-verðlaunin. Hann er þó ekki sá eini af ungverskum uppruna sem fær verðlaunin því László Krasznahorkai sem nýlega var sæmdur Nóbelsverðlaunum í bókmenntum hlaut alþjóðlegu Booker-verðlaunin árið 2015.
Hér má finna stuttlista Booker-verðlaunanna 2025