Margt smátt | Elsa
Elsa
Þórgunnur gekk inn um dyrnar á sundlauginni í fyrsta sinn. Hún synti alla daga en hafði bara flutt endanlega í bæinn í gær. Hún sá að þetta var ekki ósvipað síðustu laug og var nokkuð sátt með það. Þegar hún hafði borgað fór hún í klefann og bjó sig undir það sem hún var vön. Fólkið í gömlu lauginni var löngu hætt að stara en hún vissi að á nýjum stað myndi fólk ekki geta stillt sig. Sér í lagi á svona litlum stað þar sem allir þekktu alla og ræddu um alla.
En hvað um það. Hún varð að synda og henti öllum fötunum rösklega inn í gamlan skápinn og læsti með lyklinum. Lykillinn hékk laus á ökklanum þegar hún dreif sig inn í sturtuna. Hún sápaði sig hratt með sömu grænu sápunni og hún hafði notað á hverjum degi frá því hún var unglingur, og skellti sér í svartan víðan sundbolinn.
Næst gekk hún út í laug. Hún fann hvernig svöl steinjörðin tók við og kalt vetrarloftið fyllti lungun. Hún dreif sig beint í heita pottinn. Þar sátu tvær eldri konur og hlógu. Þær gáfu henni engan gaum en hún reyndi að giska á hvort þær væru systur eða vinkonur. Þær voru um margt áþekkar og greinilega nánar.
*
Elsa sat á bekknum þegar Þórgunnur kom inn. Þórgunnur hafði séð hana nokkrum vikum fyrr í heita pottinum með annarri gráhærðri konu en núna sat hún ein. Það var eitthvað vandræðalegt við hana og ekki hjálpaði að bekkirnir voru orðnir lélegir og hún bara komin í nærbuxur og brjóstahaldara. Það var mild klórlykt í loftinu og Þórgunni hafði alltaf fundist þessi klefi frekar lélegur. Gamlar flísarnar voru stofnanalegar og skáparnir litlir. En ekkert af þessu olli því hvernig Elsa virtist passa illa inn í umhverfið heldur hafði Þórgunnur á tilfinningunni að þessi brosmilda gráhærða kona passaði ekki inn neins staðar. Hún var stór og smá á sama tíma og þegar fætur hennar hvíldu á köldum flísunum var eitthvað hlýlegt við þennan annars óspennandi kvennaklefa sem Þórgunnur hafði aldrei fundið fyrir. Flúorljós, ljótir vaskar og of lítil hólf fyrir handklæði og sápu skiptu skyndilega minna máli og hún brosti til konunnar sem sat þarna þó að hún þekkti hana ekki og væri ekkert sérstaklega vön að brosa til ókunnugra.
Hún gekk framhjá henni, opnaði skápinn og byrjaði að hálftroða inn einni flík af annarri. Hún var jafnhundleið á að verða að mæta í laugina daglega en samt var aðeins léttara yfir henni.
*
Þórgunnur var orðin vön að spjalla við Elsu og Guðrúnu í heita pottinum. Í dag rifjuðu þær upp æskuna og lýstu hvernig allt hafði breyst. Þær höfðu verið svo ólík börn. Elsa var rauðhærð, stór og frekar hávær en Guðrún ljóshærð, lítil og hógvær en alltaf stóðu þær saman ef eitthvað bjátaði á. Í dag voru þær hins vegar líkar. Báðar með hvítt hár og aðeins visnar en hraustlegar og glaðlegar konur sem hlógu svo dátt saman.
Þær höfðu flutt hlið við hlið með mönnum sínum og börn þeirra alist upp sem nágrannar og frændsystkin. Þær sögðu að þær væru nú ekkert alltaf inni á stokk hjá hvor annarri en sundið áttu þær saman. Það voru samt skipti sem Elsa kom án Guðrúnar og það voru þau skipti sem Þórgunnur kynntist Elsu á sérstakan hátt. Öðruvísi en hún hafði kynnst nokkrum áður.
*
Þórgunnur tók einn daginn eftir því að Elsa horfði alltaf á brjóstin á henni í sturtunni. Hún var vön köllum á öllum aldri sem störðu á brjóstin á henni. Henni fannst það alltaf óþægilegt og ógeðslegt. Konur litu stundum á þau stuttlega eins og til þess að taka stöðuna, telja og bera saman. En Elsa starði stöðugt á þau. Í fyrsta skiptið varð Þórgunnur frekar hissa. Elsa var miklu eldri og gift kona. Svo varð Þórgunnur vön þessu. Það voru dagar sem hún velti fyrir sér skýringu en annars hafði hún bara umburðarlyndi fyrir þessu, fyrir henni. Hún fyrirgaf henni.
*
Elsa var ólík sjálfri sér einn daginn. Þórgunnur settist á gólfið og opnaði túpuna með fótaáburðinum eins og hún var vön og byrjaði að bera á fætur Elsu. Hún velti fótunum fram og aftur í höndunum eins og deigi og nuddaði kreminu ríkulega yfir litla dældir, krumpur og beyglur.
Elsa var vön að brosa og tala um veðrið. Stundum sagði hún frá Guðrúnu eða krökkunum sínum en það kom líka fyrir að hún talaði um barnabörnin. Þórgunnur hafði aldrei talið þetta eftir sér og var vön að taka frá þessum stundum jákvæða orku sem entist aðeins frameftir morgni.
Í dag var Elsa ekki glöð. Hún hafði ekki mörg orð um það en virtist hafa hitt einhverja konu. Einhverja sem hún og Guðrún þekktu þegar þær voru litlar og hún var í uppnámi. Hún bar sig öðruvísi og var órólegri á bekknum en vanalega.
Þórgunnur fylltist óþægilegum tilfinningum. Hún varð reið og sár fyrir hönd Elsu en líka aðeins hrædd. Það var á þessari stundu að hún áttaði sig á því hvað henni þótti vænt um Elsu og að þessar stundir væru ekki síður henni til ánægju og lífsfyllingar en Elsu til hjálpar. Það var þennan dag sem Þórgunnur velti fyrir sér hvernig samband þær ættu í raun og veru og hvort hún gæti réttlætt að halda því áfram.
*
Það leið langur tími sem Þórgunnur hitti ekkert systurnar í sundinu. Hún hélt áfram að mæta eins og hún hafði alltaf gert en hún var farin að finna að það var hluti af henni sem var kominn með nóg. Sem þoldi ekki meira.
Einn daginn hitti hún Guðrúnu sem sagði henni að Elsa hefði dottið og væri á spítala í næsta bæ. Hún hafði ætlað að fara að tala við konuna sem hún hafði sagt Þórgunni frá. Hún fór gangandi í hálkunni og rann. Hún var mjaðmarbrotin og hafði rekið höfuðið í.
Þessi kona hafði víst borið út sögur um Elsu þegar þær voru unglingar. Hún hafði sagt öllum að Elsa hefði reynt að kyssa sig og eftir það voru strákarnir leiðinlegir við Elsu og flestar stelpurnar hættu að tala við hana. Það var ekki fyrr en Elsa flutti til Reykjavíkur og hitti Jón að sögurnar hættu. Guðrúnu fannst alltaf ömurlegt af þessari konu að skálda svona um Elsu sagði hún Þórgunni.
*
Þórgunnur tók rútuna til þess að heimsækja Elsu á spítalanum. Elsa var að mörgu leyti lík sér en virtist ekki þekkja Þórgunni. Hún brosti samt og sagði:
„Má bjóða þér kökusneið vinan?“ Þórgunnur horfði á nokkuð girnilega sneiðina sem Elsa hafði skilið eftir á borðinu.
„Ég get það ekki,” sagði hún og reyndi að ýta niður öllum tilfinningunum sem reyndu alltaf að brjótast út í kringum Elsu.
„Kannski á morgun,“ sagði Elsa og brosti blítt og í fyrsta skipti í yfir áratug hugsaði Þórgunnur: „Kannski á morgun.“
*
Þórgunnur starði út um bílrúðuna og var búin að segja fátt við mömmu sína. Hún var ekkert búin að sjá Elsu síðan á spítalanum. Hún hafði séð Guðrúnu í kjörbúðinni en ekki farið til hennar. Það var eins og hún vildi ekki vita það sem hún nú þegar vissi. Það var eins og ef hún læsi það í blaðinu eða heyrði Guðrúnu segja það yrði það raunverulegt. Þá þyrfti hún að gera upp við sig hvernig henni liði en hún hafði ekki gert það í mörg ár.
Elsa hafði breytt einhverju. Tilfinningarnar sem hún hafði eytt svona löngum tíma í að fela sig fyrir voru farnar að reyna að komast út. Hún hafði falið sig svo lengi að hún þekkti ekkert annað. Hún hafði falið sig svo vel að hún var næstum horfin.
Allt í einu leit hún upp. Rúta stefndi beint á þær. Hélan hafði tekið yfir og rútan misst fótfestuna. Hún hugsaði um hvort fólk í litlum fólksbíl dæi alltaf ef það lenti framan á rútu. Skyndilega, eins og fyrir guðs náð, breytti rútan um stefnu og keyrði rólega út í kant.
Mamma hennar nam staðar og hljóp út. Hún vildi vita að það væri í lagi með alla og kom svo aftur.
„Ég ætla að hætta að synda.“ sagði Þórgunnur þegar þær keyrðu af stað.
„Jæja,“ sagði mamma hennar en Þórgunnur sá að henni var létt. Hún fann fyrir gleði og sorg á sama tíma og vissi að nú myndi allt breytast.
Höfundur: Ósk Dagsdóttir