Jóladagatal | Stikkprufur úr flóðinu 2022

Við hó-hó-hóuðum í nokkra höfunda og þýðendur sem eiga bækur í flóði ársins. Eitt af öðru koma þau til byggða og kynna nýútgefnar bækur sínar, hvert með sínu nefi. Fylgist með í desember, alla daga fram að jólum!

Skoðið Stikkprufurnar á Facebook og deilið með vinum ykkar! 
 

23. desember

Þá er runnin upp Þorláksmessa, ýmsir á þönum, þó vonandi varlega í færðinni - bæði gangandi og akandi. Við opnum síðasta glugga jóladagatalsins okkar, því líkt og síðustu ár látum við hér staðar numið. Á morgun er aðfangadagur og þá óskum við ykkur kæru bókaormar að þið opnið ekki tölvuna, heldur raunverulega bók. Því hvað er jólalegra en einmitt það?

Höfundur dagsins er Ingi Markússon með skáldsögu sem gerist í myrkum heimi ... Skuggabrúin ... viðeigandi, þó daginn sé tekið að lengja! Gleðileg jól kæru vinir! 

22. desember

Aðeins tveir dagar til jóla og sól farin að hækka á lofti. Það er ótrúlegt hvað tíminn flýgur en við höldum ótrauð áfram að opna jóladagtalið okkar. Spennusögur eru vinsælar í jólapakkann og í glugga dagsins er einmitt ein slík, ásamt höfundi. Eva Björg Ægisdóttir les upp úr bók sinni Strákar sem meiða.

21. desember

Gluggagægir kom til byggða í nótt og Snæbjörn Arngrímsson kom samferða honum. Hann lét nægja að gægjast út um gluggann á þessu ágæta jóladagatali og þannig gægist hann út um skjái um land allt.

Með sér hefur hann spennusöguna Eitt satt orð, þar sem óljóst er hvort glæpur hefur verið framinn...

Þrír dagar til jóla!

20. desember

Í kuldanum og hríðinni hugsa eflaust einhverjir til formæðra okkar og -feðra sem lifðu kuldaskeið fortíðar af í misjöfnum húsakosti. Þá var samveran mikilvæg, líkamar hituðu líkama. Og í samverunni var húslestur, það hljómar eitthvað svo hátíðlega, kannski lifir minningin um þessar stundir einhvers staðar í taugakerfinu..

Hvað um það. Við skulum opna glugga dagsins.

Þar leynist einmitt Húslestur! Höfundur bókarinnar, Magnús Sigurðsson, les upp fyrir okkur.

19. desember

Enn er daginn að stytta, þó vetrarsólstöður nálgist óðfluga. Við opnum nítjánda glugga jóladagatalsins í dag og þar blasir við verðlaunahöfundur með bók sem tilnefnd er til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár. Kristín Eiríksdóttir les upp úr bók sinni Tól.

(Það var erfitt að hemja orðaglensarann að þessu sinni, þegar tólið barst að vetrartólstöðum og jólatagatólum, já og tólnefningum, en svona glens er auðvitað ekki að allra skapi. Svo við segjum bara: Gleðileg Tól!)

18. desember

Fjórði í aðventu og Stóri bróðir fylgist með okkur. Skúli Sigurðsson gægist út um glugga dagsins.

17. desember

Í glugga jóladagatalsins í dag gægist út rifhöndur með litla gjöf - Sápufugl! Sápufugl er frábær jólagjöf því hún safnar ekki ryki í geymslunni heldur eyðist við notkun. Ja, ef hann er notaður. María Elísabet Bragadóttir er gluggagægir dagsins og les upp úr smásagnasafninu Sápufuglinum.

16. desember

Þá eru tveir þriðju hlutar liðnir af biðinni eftir jólunum og við opnum sextánda glugga jóladagatalsins. Þar gægist út handhafi Nýræktarstyrks með splunkunýja bók. Örvar Smárason kannast kannski einhverjir við úr hljómsveitunum FM Belfast og MÚM, en í dag birtist hann okkur sem rithöfundur og les upp úr bók sinni Svefngríman. Góða nótt.

15. desember

Níu dagar til jóla, hvorki meira né minna. Í glugga dagsins gægist Sigurlín Bjarney Gísladóttir út ásamt áttræðum puttalingi, henni Sólrúnu. Hvað veldur því að áttræð kona leggur upp í ferðalag á puttanum um landið? Sólrún: Saga um ferðalag.

14. desember

Tíu dagar til jóla en 238 ár síðan séra Jón Steingrímsson deildi út neyðarhjálp til bágstaddra (og sjálfs síns) sem átti að nota til að endurreisa byggð í vesturhluta Skaftafellssýslu. Það var stórfé og ákvörðun Jóns mæltist illa fyrir og var hann kærður til danskra yfirvalda.

Jón Kristinn Einarsson, sagnfræðingur, er gluggagægir dagsins!

13. desember

Ellefu dagar til jóla og við gægjumst inn um enn einn glugga jóladagatalsins okkar. Þar er engin önnur en Arndís Lóa Magnúsdóttir með ljóðabók sína Skurn. Bókin hefur hlotið góðar viðtökur og Arndís segir okkur frá henni og María Elísabet vinkona hennar og kollegi les svo upphaf bókarinnar. Njótið!

12. desember

Þau komu samferða úr fjallinu í morgun; Silja, Jane og Stekkjastaur. Töfðust á leiðinni, þau höfðu svo margt að ræða. Jane og Stekkjastaur sátu eitt sinn saman ritlistarnámskeið á átjándu öldinni og Stekkjastaur hafði margt að segja um þýðingu Silju á fyrstu bók Austen; Sense and sensibility, sem nýlega kom út og kallast á íslensku Aðgát og örlyndi. Hann laumaði henni víst í skó hjá bráðgeru barni á Barðaströnd.

En nú opnum við gluggann og heyrum hvað Silja Aðalsteinsdóttir hefur að segja.


11. desember

Í dag er þriðji sunnudagur í aðventu og í nótt er von á fyrsta jólasveini til byggða. Nú minnir svo sannarlega ótal margt á jólin og við bíðum ekki boðanna og opnum næsta glugga á jóladagatalinu. Þar gægist Anna María Bogadóttir út með bók sína Jarðnæði.

10. desember

Ármann Jakobsson, jólaprófessor, gægist út um gluggann í dag, með ekki eina - heldur tvær bækur í farteskinu. Enda tvær vikur til jóla. Svo það er viðeigandi. Bækurnar eru Álfheimar 2: Risinn og Reimleikar: Saga um glæp

9. desember

Jæja góðir hálsar, þá eru fimmtán dagar til jóla og ekki seinna vænna en að hita sér vænan kakóbolla og njóta tilhugsunarinnar um góða jólabók. Eru ekki allir að skrifa jólabókaóskalista? Rithöfundurinn sem gægist út um gluggann í dag er engin önnur en Bergþóra Snæbjörnsdóttir. Hún les upp úr bók sinni Allt sem rennur


8. desember

Handhafi Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar gægist út um glugga dagsins, það er Natasha S með bók sína Máltöku á stríðstímum.


7. desember

Í glugga dagsins gægist rithöfundurinn Pétur Gunnarsson út, en ásamt honum leynigesturinn Jean-Jaques Rousseau, sem í ár hefði orðið 310 ára, hefði hann lifað. Hann lifði reyndar ekki einu sinni að sjá Játningar sínar koma út á frummálinu, sem Pétur Gunnarsson hefur nú snarað yfir á íslensku.


6. desember

Sjötti desember og við opnum enn einn gluggann á jóladagatalinu okkar. Átján dagar til jóla! Og í glugganum í dag er engin önnur en Rán Flygering með bókina sína um ELDGOS. Við skulum heyra hvað hún hefur að segja um hana...


5. desember 

Í dag er fimmti desember og út um dagatalsgluggann gægist Birna Björg Guðmundsdóttir, þýðandi bókarinnar Ég er Jazz. Frá því að hún var tveggja ára gömul vissi Jazz að hún væri stelpa þó að allir héldu að hún væri strákur. Trans börn eru allskonar eins og önnur börn. Þau hafa misjafnan fatasmekk og misjöfn áhugamál. En þetta er saga Jazz sem byggir á upplifun hennar. Birna segir frá bókinni í myndbandi dagsins!


4. desember 

Í dag er fjórði desember og annar í aðventu og það þýðir auðvitað ákveðinn ljósagang, fólk kveikir tvö ljós á aðventukrönsum víðsvegar um heim og við opnum fjórða gluggann á dagatalinu okkar. Þar leynist Dagur Hjartarson, fyrsti Dagur ársins, með bók sína Ljósagang - sem nýverið var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Við skulum hlýða á upplestur í tilefni dagsins.


3. desember 

Valur Gunnarsson er þriðji höfundur til byggða í ár og gægist í dag út um gluggann með vangaveltur um hliðarsögu... það er að segja, söguna sem aldrei gerðist. Líklega best að leyfa Vali að útskýra málið. Hvað ef?


2. desember 

Eftir jólakúlur og samkomubönn síðustu ára er Farsótt líklega það síðasta sem fólk óskar sér í ár - ja, eða hvað? Við skulum sjá hvort Kristín Svava Tómasdóttir nái að sannfæra okkur um annað... 


1. desember 

Gleðilegan desember. Enn eru tuttugu dagar í að Gluggagægir komi til byggða, en við tökum forskot á sæluna og gægjumst inn um fyrsta glugga Jóladagatalsins okkar. Líkt og síðustu tvö ár fengum við til okkar glás af rithöfundum sem ætla að kynna nýútkomnar bækur sínar, dag hvern í desember, fram til jóla. Fyrstur í röðinni er Brynjólfur Þorsteinsson með skáldsögu sína Snuð.