Gerðuberg kallar | Umsóknarferli lokið

Gerðuberg kallar hófst árið 2021 með ákalli til skapandi einstaklinga um að vinna verkefni með safninu. Að leiðarljósi voru tvö þemu: að tilheyra og örugg rými fyrir alla. Í stuttu máli heppnuðust bæði verkefnin vel og skildu eftir sig reynslu og tengsl sem fylgja okkur áfram. Því viljum við halda áfram með skapandi samstarf og að þessu sinni er þemað: tengsl - það sem sameinar okkur.

Sú tillaga sem var valin að þessu sinni er:

Every word was once a medicine (Heilandi máttur orða), eftir Camila Rápalo og Elisabeth Nienhuis.

Verkefnið var valið vegna nýstárlegrar nálgunar. Það miðar að því að tengja saman fólk og samfélög í samvinnuverkefni. 

gerðuberg kallar

Umsóknarferlið í Gerðuberg kallar tekur sinn tíma. Valnefnd var skipuð óháðum aðilum. Leitast var eftir að velja verkefni sem tengjast hvað best  þemanu: tengsl – það sem sameinar okkur. Í nefndinni voru Kolfinna Kristínardóttir, Arnar Sigurðsson og Vigdís Jakobsdóttir. Eftir að dómnefndin hafði farið yfir umsóknir stóðu tvær tillögur eftir með flest stig og var þeim boðið í samtal á safninu til þess að fara betur ofan í saumana á hverri tillögu fyrir sig. Vert er að geta þess að Gerðuberg kallar er vettvangur tilrauna og tengsla milli safnsins og skapandi einstaklinga svo verkefnin þurfa ekki að vera fullmótuð þegar sótt er um. Skoðað er sérstaklega hvernig verkefnið tengir saman starfsfólk, skapandi einstaklinga og notendur safnsins.

TENGSL

Við þurfum á tengslum að halda til að okkur líði vel. Tengsl við aðra geta unnið bug á einsemd sem mörg finna fyrir í dagsins önn. Tengsl við aðrar manneskjur stuðla að sterkari samkennd, skilningi á að við erum ólík og deilum ekki öll sömu sýn á lífið. Við þurfum ekki að hræðast það. Ef við eflum tengsl við aðra verða lýðræðislegar samræður og tilfinningin fyrir samfélaginu sterkari. Hvaða venjur og siðir myndu efla tengsl og tengja okkur við nærsamfélagið – koma okkur saman á ný?

Verkefnið er styrkt af Bókasafnasjóði.

Frekari upplýsingar:
Martyna Karolina Daniel, sérfræðingur í fjölmenningarmálum
martyna.karolina.daniel@reykjavik.is

 

Allar upplýsingar fyrir umsækjendur í pdf-skjali.