Maarit Kaipainen

Lesandinn | Maarit Kaipainen

Maarit Kaipainen er með BA gráðu í viðskiptafræði sem hún nam í Finnlandi. Hún stofnaði sitt fyrsta fyrirtæki með nemendum úr skólanum og hefur síðan þá áralanga reynslu af sölu- og markaðssetningu, rak m.a. verslunina Finnska búðin í sjö ár í Reykjavík. Í dag stundar Maarit meistaranám í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands. Hún starfar hjá Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni og finnst ekkert jafn mikilvægt og það verkefni að starfa við loftslags - og umhverfismál, sjálfbærni og sér í lagi í fyrirtækjaheimi sem hún þekkir vel til og segir að þurfi að ganga í gegnum byltingu á næstu árum. Hún hefur mikinn áhuga á nýsköpun, sjálfbærum lausnum og hringrásarhagkerfi. Maarit hefur búið á Íslandi í 15 ár og býr nú í Vesturbænum með börnum sínum og manni og kisunni þeirra. Þau eiga einnig tvo eldri stráka og barnabarn. Ásamt lestri á góðum bókum þá elskar Maarit að fara í leikhús, á listasöfn og tónleika og að hitta alls kyns fólk. Hún vonar að veturinn muni einnig nýtast á hestbaki og í útivist og óskar hér með eftir snjó- og sleðaveðri.
 

Snertir dýpra en vísindin - Breaking Boundaries 

Ég elska að lesa á öllum mínum tungumálum, helst á íslensku en einnig finnsku og ensku. Það er mjög erfitt að velja fáeinar bækur til að fjalla um, mun auðveldara að velja langan bókalista. Mig langar fyrst að nefna bók sem ég er að klára að lesa þessa dagana, Breaking Boundaries, The Science of Our Planet eftir Johan Rockström og Owen Gaffney. Þetta er fræðibók sem fjallar um þau níu grundvallarkerfi á bláa hnettinum okkar sem gefur jörðinni seiglu (resilience) og fyrir umhverfið okkar, það sem getur stutt fjölbreytt líf sem hefur sprottið upp á jörðu - að fæða okkur, bjóða hlýju og öryggi og um stöðugleika þegar kemur að umhverfinu. Bókin fjallar líka um hvernig mannkynið er að ganga að þolmörkum í flestum kerfum jarðarinnar og hvaða áhrif það hefur um allan heim. Þetta hljómar kannski flókið en bókin er svo vel skrifuð að hver sem er getur lesið og skilið og notið. Frábærar og hræðilegar sögur og myndlíkingar sem snerta dýpra en vísindin og það frá öllum heimshornum. Það besta við bókina er að höfundar einbeita sér að lausnum og næstu skrefum sem mannkynið allt þarf að taka í sameiningu. Við höfum engan tíma að missa, eins og Johan segir sjálfur, en við megum heldur ekki  missa vonina því það er enn tækifæri til að bjarga skipinu. Heimildarmynd með sama heiti, Breaking boundaries, heillaði mig einnig. Ef þú vilt myndræna útgáfu og söguna sagða af Johan sjálfum, David Attenborough og fleirum, þá mæli ég hiklaust með myndinni en gott er að vera tilbúin eftir á fyrir þörfina sem rís til að ræða málefnið við nánasta fólkið sitt, þetta nefnilega snertir djúpt sem er gott. Það er frábært hvað það er til mikið af góðu efni um vísindin bakvið loftslagsvána sem hentar öllum að lesa og horfa - og sem er bæði auðskiljanlegt og aðgengilegt.

 

Það er mjög mikilvægt í mínu starfi og svona almennt fyrir okkur öll að hafa vísindin á hreinu og skilja hvað er að gerast, en það dugar ekki ef við getum ekki tengst efninu persónulega. Tilfinningar okkar stýra okkur, einnig samfélaginu og það sem aðrir gera, mórallinn, norm og tíðarandi.
 

Að tengjast jörð og rótum 

Ég valdi tvær bækur eftir Andra Snæ Magnason sem hafa snert mig og gefið mér umhugsunarefni og jafnvel huggun. Hvorug þessara bóka þurfa mikla kynningu, en ég er auðvitað að tala um Um tímann og vatnið (2019) og Sagan af bláa hnettinum (1998). Um tímann og vatnið fékk ég í jólagjöf frá manninn mínum fyrir tveimum árum og las strax og er alltaf að mæla með henni við alla. Andri nær svo vel að tengja okkur í tímann og jú, líka í vatnið og jörðina. Samtölin með Dalai Lama, sameiginleg saga hindúa og Íslendinga, saga Andra og hans fjölskyldu, allt fléttast þetta saman í eina heild og færir okkur nær því að tengjast aftur jörðinni, rótunum og auðhumlu til að geta svo bjargað því sem enn er hægt að bjarga. Ég sá einnig sögusýninguna í Borgarleikhúsinu eftir útgáfu bókarinnar og mæli með því að fara að hlusta á Andra og Högna ef tækifærið gefst aftur. 

 

Andlegt nesti - samkennd og tungumál tilfinninga

Sagan af bláa hnettinum höfum við lesið margoft fyrir krakkana okkar Röskvu og Sindra, sem og séð söguna leikna 4-5 sinnum á sviði Borgarleikhússins. Þessi áhrifaríka saga fjallar um samkennd og hamingju, um rödd barna í heimi þar sem eina fullorðna veran er sú sem næstum því skemmir allt með græðgi og sjálfselsku, en hann lærir samkennd og kærleika og fyrirgefningu af börnum bláa hnattarins og sagan endar vel. Við megum ekki gleyma að börnin okkar þurfa líka að skilja það sem er að gerast í heiminum og við þurfum að bjóða þeim andlegt nesti til að sigra hræðsluna og kvíðann sem geta fylgt og einnig lausnir og tækifæri að hafa áhrif sjálf. Þessar bækur hafa verið þýddar á mörgum tungumálum og það er ekki skrítið, því Andri nær svo vel að tala tungumál tilfinninga, sem snertir okkur óháð uppruna. Ef þú átt eftir að lesa þessa demanta, þá mæli ég með að fá þessar bækur lánaðar næst á safninu. Svo eru líka Tímakistan (2018) og Draumalandið (2007) eftir Andra eitthvað sem ég vil endilega mæla með ef þig langar að lesa meira eftir höfundinn. Margar af bókum Andra Snæs eru einnig til á ensku á bókasafninu, sem er frábært fyrir okkur innflytjendur!


Á þriðjudaginn þann 9. nóvember verður viðburðurinn Sjálfbærni og bókmenntir á Borgarbókasafninu. Þetta er opið samtal á vegum Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni. Maarit frá Festu og rithöfundurinn Gerður Kristný spjalla um bækur sem geta opnað huga okkar og aukið skilning á sjálfbærni, með nýjum hætti. Samtalið fer fram á Torginu í Grófinni klukkan 17:00 og er opið öllum.

Hér að neðan má einnig finna lengri bókalista um sjálfbærni sem Festa mælir með.
 

Category
UpdatedMonday April 29th 2024, 14:38
Materials