Lesandinn | Benný Sif Ísleifsdóttir
Benný Sif Ísleifsdóttir sendi frá sér bókina Hansdætur fyrir jólin 2020 en sjálf er hún mikill lestrarhestur. Hún heldur samviskusamlega lestrardagbók á vefsíðunni Goodreads. Síðustu bækur sem hún las þar voru eftirfarandi, með þeim fylgir stutt umsögn Bennýjar:
Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur. „Góð en afar myrk.“
Níutíu og níu ár: Jóhanna Egilsdóttir segir frá eftir Gylfa Gröndal. „Saga merkrar baráttukonu og svipmyndir af harðri lífs- og kjarabaráttu.“
Fyrstu árin eftir Guðrúnu Jónsdóttur frá Prestbakka. „Þessa nýskráði ég á goodreads og kannski er hún öllum gleymd en hún er dásamlega falleg!“
Álabókin eftir Patrik Svensson í þýðingu Þórdísar Gísladóttur. „Sérlega áhugaverð saga um sérlega áhugaverðan fisk, ef hann er fiskur ...“
Yfir bænum heima eftir Kristínu Steinsdóttur. „Notaleg og upplýsandi söguleg skáldsaga.“
Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Jökulsdóttur. „Léttgeggjuð!“
Benný segist frekar eiga sér uppáhaldsbækur en uppáhaldshöfunda. „Ég ætla engum höfundi að hitta í mark hjá mér með hverri bók, það sem mér líkar síður er uppáhald annarra,“ segir hún og deilir með okkur lista yfir sínar eftirlætisbækur:
Mávahlátur eftir Kristínu Marju
Afleggjarinn eftir Auði Övu Ólafsdóttur
Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi
Ljósa eftir Kristínu Steinsdóttur
Fjallkirkjan eftir Gunnar Gunnarsson
Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson
Heimsljós eftir Halldór Laxness (eða Magnús, Hj, Magnússon, djók, ekki djók)
Gæludýrin eftir Braga Ólafsson
Himnaríki og helvíti, þríleikurinn eftir Jón Kalman
Svar við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson
og nú síðast: Fyrstu árin eftir Guðrúnu frá Prestbakka