Þórey Gylfadóttir and Bjarnheiður Magnúsdóttir add new work to the exhibition.

Borgarbókasafnið Árbæ | Sýning Áss slær í gegn

Starfsmenn í Ási sýna nú verk sín í Borgarbókasafninu Árbæ undir yfirskriftinni Enginn getur allt en allir geta eitthvað.

Sýningin opnaði í lok september og stendur fram í byrjun janúar og eiga tæplega þrjátíu listamenn verk á sýningunni. Sýningarverkum var skipt út nýlega fyrir önnur verk þar sem fjöldi verka var seldur og áfjáðir kaupendur biðu eftir að fá listaverkin í hendur. Án efa verða einhverjir heppnir með jólapakka í ár.

Á sýningunni  eru veggdropar sem eru myndir úr þæfðri ull, leirmunir og mósaíkverk. Óhætt er að segja að listaverkin séu litrík og falleg og hafa gestir bókasafnsins verið ósparir á hrósið.

Í spjalli við þær Þóreyju Gylfadóttur og Bjarnheiði Magnúsdóttur, sem sáu um að hengja upp verkin, kom fram að þetta er fyrsta sýning starfsmanna Áss utan vinnustaðarins. Þórey er umsjónarmaður textílsverkstæðisins og Bjarnheiður er svæðisstjóri í Ási. Þær voru lukkulegar með aðsóknina og segja það hafa verið virkilega skemmtilegt að fara í útrás með verkin. Þær sjá fyrir sér að framhald geti verið á því enda hafa verkin vakið mikla athygli.

Tvisvar á ári eru haldnir markaðir í Ási þar sem margskonar handunnar vörur eru á boðstólum sem starfsmenn Áss búa til. Nýlega var jólamarkaðurinn haldinn og var húsfyllir. Á vorin er sömuleiðis haldinn markaður en þess á milli er verslunin í Ási alltaf opin á skrifstofutíma.

Í Ási er lögð áhersla á að skapa fólki með skerta starfsgetu vinnuaðstöðu sem sniðin er að þörfum hvers og eins með það að leiðarljósi að „enginn geti allt en allir geti eitthvað“. Listsköpun skipar stóran sess í Ási en annað starf fer þar einnig fram, þar er m.a. smíðastofa og saumastofa þar sem saumuð eru viskastykki, handklæði, klútar og margt fleira. Einnig er unnið við ýmiskonar pökkun og fleiri verkefnum sinnt fyrir stofnanir og fyrirtæki. Má þar nefna að starfsfólk í Ási sér um að pakka Kærleikskúlunni.

Áhugasöm geta keypt verk á sýningunni í gegnum verslun Áss í Ögurhvarfi 6, sími 414 0500, asvin@styrktarfelag.is

Vefverslun Áss
Ás á Facebook

Category
Tags
UpdatedWednesday December 18th 2024, 14:18