Vinalestur Heiðrúnar | „Þetta eru algjörir snillingar“

„Mér finnst mikilvægt að þau velji sér sjálf þær bækur sem þau langar að lesa, það eykur á áhugann. Ég vel kannski nokkrar bækur úr hillum bókasafnsins sem ég held að þau kunni að hafa áhuga á, til að þrengja valið, svolítið erfitt að velja úr öllum bókunum í barnadeildinni og þau velja síðan úr þeim bunka. Hvert barn mætir einu sinni í viku, klukkutíma í senn.“

Segir Heiðrún Kristín Guðvarðardóttir sem fór af stað með verkefnið Vinalestur Heiðrúnar síðastliðið haust. Markmið verkefnisins er að aðstoða börn við að lesa á íslensku og segir Heiðrún íslenskukennsluna ósjálfrátt laumast með en allir þátttakendurnir eru með annað móðurmál. Vinalesturinn er alla virka daga á Borgarbókasafninu Gerðubergi og fylgir skólavetrinum, hefst í september og lýkur í maí. 

„Ég og börnin skiptumst á að lesa, þau lesa sína blaðsíðu og svo les ég þá næstu, því það er líka mikilvægt að þau heyri framburðinn. Síðan spjöllum við um það sem við vorum að lesa. Fyrst spyr ég og útskýri síðan ef það er eitthvað sem þau ekki skildu. Ég nota google translate og sýni þeim myndir til að útskýra. Þá kemur oft aha! hjá þeim.“

Myndlistarsýning og upplifunarferðir

Heiðrún, sem er tómstunda- og félagsmálafræðingur, hefur fjölbreytta reynslu af því að vinna með fólki á ýmsum aldri. Meðal annars hefur hún unnið í félagsstarfi aldraðra á hjúkrunarheimilum og með börnum á frístundaheimilum þar sem hún setti meðal annars upp atriði úr söngleik en hún er lærð söngkona. 

Þá hefur hún fengist við myndlist í gegnum árin og nýtir það í lestrarkennslunni. 

„Þegar við erum búin að lesa saman í um það bil hálftíma teikna börnin myndir úr efni bókanna. Og bara vá! myndirnar sem þau teikna, ég teiknaði ekki svona á þessum aldri, þetta eru listaverk! Fyrir jól var haldin myndlistarsýning í Gerðubergi á myndunum barnanna frá haustönninni og er þegar búið að ákveða að haldin verður önnur sýning á afrakstri vorsins.“ 

Heiðrúnu finnst mikilvægt að börnin læri ekki aðeins að lesa á íslensku heldur leggur hún einnig áherslu á að þau fái að kynnast hluta af þeirri menningu sem í boði er í Reykjavík. Í vetur hefur nemendahópurinn farið í heimsókn í Hörpu og sáu einnig leikritið Fíusól í Borgarleikhúsinu. 

„Börnin skildu ekki allt en höfðu engu að síður mjög gaman að. Eftir sýninguna fengu þau að fara upp á svið og hitta leikara og skoða sviðsmyndina, það var virkilega gaman. Í þakklætisskyni teiknuðu þau mynd og gáfu leikhúsinu. Fyrsti nemandi minn í lestrarvinum leikur í leikritinu. Það var alveg ótrúlega gaman að sjá þessa flottu stelpu á sviðinu. Þessar heimsóknir sem ég kýs að kalla upplifunarheimsóknir, gera mikið fyrir lestrarvini og vona ég að við förum að minnsta kosti í eina til viðbótar fyrir sumarfrí. Það væri gaman að fara með þau t.d. Árbæjarsafnið, þar er margt að sjá og gera fyrir yngstu kynslóðina.“

Á Fíusól

Eftir að hafa séð leikritið Fíusól fengu börnin að fara upp á svið í Borgarleikhúsinu, skoða sviðsmyndina og hitta leikarana. 

Persónuleg tengslamyndun mikilvæg

Börnin sem taka þátt í verkefninu eru búsett víða á höfuðborgarsvæðinu og koma frá þremur heimsálfum, Evrópu, Afríku og Suður - Ameríku. Heiðrún auglýsti lestraraðstoðina í blöðunum og á vefnum, á íslensku og ensku, og viðbrögðin létu ekki á sér standa. 

„Áhuginn var mun meiri en ég hafði ímyndað mér, ég er sjálf að lesa með 18 börnum og sjálfboðaliðinn sem er með mér, Margrét Óðinsdóttir, er með 5 börn. Upphaflega hugmyndin var að þetta væri fyrir 6 - 10 ára en ég hafði alls ekki í mér að segja nei þegar ég var beðin um að lesa með einum 14 ára.“

Heiðrún segir að einnig hafi það hjálpað mikið að mynda persónuleg tengsl við tungumálahópa. Þannig hafi hún eignast góða vinkonur frá bæði Víetnam og Úkraínu sem hafi báðar látið orðið berast til vina og vandamanna sem eru búsett á höfuðborgarsvæðinu og þannig hafi smám saman bæst í nemendahópinn. 

Vantar fleiri sjálfboðaliða til að kenna lestur

„Nú er staðan sú að að það er kominn biðlisti en ég get ekki tekið við nýjum nemendum nema fá inn fleiri sjálfboðaliða til að lesa, t.d. kennara á eftirlaunum eða önnur áhugasöm sem langar að leggja sitt af mörkum við að aðstoða börn af erlendum uppruna við að læra að lesa, og þá smá íslensku í leiðinni. Ekki er þörf á að viðkomandi tali önnur tungumál en íslensku þótt einhver enskukunnátta sé kostur. Það má alltaf bjarga sér með myndum, google translate og góðu látbragði. Þau sem hafa áhuga á að bætast í sjálfboðaliðahópinn geta sent mér tölvupóst á vinalestur.heidrunar@gmail.com. Vonandi stekkur einhver á þetta skemmtilega og gefandi verkefni.“

segir Heiðrún að lokum, sem vonast til að verkefnið sé komið til að vera enda ljóst að þörfin er mikil. 

 

Category
UpdatedWednesday March 20th 2024, 15:08