Kvennaverkfall | Bókalisti
Þann 24. október 1975 boðuðu íslenskar konur til Kvennafrís og lögðu niður vinnu til að leggja áherslu á mikilvægi vinnuframlags kvenna. Nú, 48 árum síðar eru í sjöunda sinn allar konur og öll kvár hvött til að taka þátt í baráttunni fyrir jafnari kjörum á vinnumarkaði og réttlátara samfélagi með því að mæta ekki til vinnu sinnar 24. október. Er þar bæði átt við launaða og ólaunaða vinnu, svokallaða þriðju vakt heima fyrir.
Talið er að um 90% kvenna á Íslandi hafi lagt niður vinnu 1975 og atvinnulíf lamast við það. Um 25.000 konur söfnuðust saman á Lækjartorgi á einum fjölmennasta útifundi Íslandssögunnar og samstöðufundir voru haldnir víða um land. Margt hefur áunnist síðan 1975 en þó er ljóst að enn mikið verk óunnið. Til að undirstrika það er yfirskriftin í ár, „Kallarðu þetta jafnrétti?“
Borgarbókasafnið á mikið af áhugaverðu efni sem tengist jafnrétti og kvenfrelsi. Hér fyrir neðan má sjá brot af því sem til er en mun meira má finna í hillum safnsins.
Búast má við skertri þjónustu og opnunartímum á Borgarbókasafninu þriðjudaginn 24. október vegna kvennaverkfallsins. Nánari upplýsingar um opnunartíma hér.