Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs verða veitt þann 2. nóvember 2021
Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs eru veitt ár hvert og eiga að stuðla að því að auka áhuga á bókmenntum og tungumálum nágrannaþjóðanna. Í ár eru 14 norrænar skáldsögur, smásagnasöfn og ljóðabækur tilnefndar til verðlaunanna, og koma verkin frá öllum norrænu löndunum og málsvæðunum. Hvaða verk hlýtur verðlaunin verður tilkynnt í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn þann 2. nóvember.
Á vefsíðu Norðurlandaráðs eru efnistök hinna tilnefndu bóka tíunduð á þessa leið: „Það að skrifa á blautan pappír, hnignun og fýsnir kapítalismans sem brenna til kaldra kola um borð í Scandinavian Star, félagsraunsæislegar lýsingar á nánum samböndum og nánd tungumálsins, höfnun málamiðlana og dalur fullur af plastblómum eru aðeins fáein dæmi um viðfangsefni hinna tilnefndu verka í ár.“
Eftirfarandi bækur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2021. Brot úr rökstuðningi dómnefnda fylgir með.
Ísland:
Aðferðir til að lifa af eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur
Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnason
Danmörk:
Penge på lommen eftir Astu Oliviu Nordenhof.
Skáldsaga. Fyrsti hluti í fyrirhuguðum flokki sjö bóka sem allar hafa einhverja tengingu við hinn skelfilega bruna um borð í ferjunni Scandinavian Star, sem varð 159 manns að bana árið 1990.Mit smykkeskrin eftir Ursulu Andkær Olsen
Ljóðabók þar sem höfundur fæst áfram við umfjöllunarefni fyrri bóka sinna, tengd móðurhlutverki og missi, en það nýstárlega er að nú eru þessi viðfangsefni tengd tíðahvörfum
Finnland:
Bolla eftir Pajtim Statovci
Við upphaf skáldsögunnar er orðið bolla skilgreint svo: 1. vofa, ósýnileg vera, óvættur, púki, 2. óþekkt dýrategund, vera sem minnir á snák, 3. utanaðkomandi. Í sögunni hittir lesandinn allar þessar skilgreiningar fyrir í einni eða annarri mynd.Autofiktiv dikt av Heidi von Wright eftir Heidi von Wright
Áttunda bók Heidi von Wright og engin venjuleg ljóðabók, þrátt fyrir nafnið. Þess í stað er frekar um að ræða atviksfrásagnir og minningar á formi prósaljóða. Þetta eru fjölskyldugoðsagnir, dramatískar að meira eða minna leyti, en þó ekki fléttaðar inn í dramatískan söguboga heldur standa þær sem stuttar, sjálfstæðar frásagnir kringum einstaka atburði og minningar.
Færeyjar
Eg skrivi á vátt pappír eftir Lív Mariu Róadóttur Jæger
Ljóðin byggja á tengslum við annað fólk og textatengslum við önnur ljóðskáld, rithöfunda og heimspekinga. Bókin fjallar um að skrifa til þess að skilja tengslin og sambandið milli eigin hugsana og allra annarra, og um að skilja sjálfa sig sem barn, unga konu og manneskju sem tekur þátt í lífi annarra.
Grænland
Naasuliardarpi eftir Niviaq Korneliussen
Listilega skrifuð frásögn um það sem býr undir meginstraumnum í grænlensku samfélagi, meðal ungs fólks sem berst fyrir því að fá að lifa lífinu eftir eigin höfði. Þetta er frásögn af ást, vináttu, sorg og ósögðum orðum og tilfinningum.
Noregur
Er mor død eftir Vigdis Hjorth
Spennuþrungin og áleitin skáldsaga þar sem mörg hinna helstu viðfangsefna Hjorth koma saman – lausn og uppgjör í nánum samböndum, sú spurning hver eigi tiltekna frásögn, sjónarhorn hvers eigi að vera ráðandi og hvernig megi láta rödd sína heyrast – allt í þéttu stofudrama.Det uferdige huset eftir Lars Amund Vaage
Auðugt og íhugult verk – í gegnum skáldsöguna liggur þráður esseyjuprósa, svo eldrauður að hann mætti kenna við bæði skáldsagnaljóðrænu og listaskáldskap.
Samíska málsvæðið
Gáhttára Iđit eftir Ingu Ravna Eira
Ljóðin feta slóð menningararfs Samanna og hefðbundinna gilda þeirra, allt frá fyrstu tíð til nútímans. Inntak bókarinnar gerir lesandanum ljóst hvernig lífsskilyrði Sama hafa breyst og hve dýrkeypt sú breyting hefur verið. Stuðlun og hálfrím í ljóðunum freistar lesandans til að taka undir jojkið og hávær hróp hreindýrasmalans til smalahunds síns. Ljóðmælendurnir kynna gömul og hefðbundin samísk orð fyrir lesandanum með eðlilegum hætti.
Svíþjóð
Strega eftir Johanne Lykke Holm
Í þessari óvenju fögru skáldsögu særir Lykke Holm ekki aðeins fram stúlknaheim fullan af helgi og launung, heldur sýnir hún möguleika á annars konar, síður rómantískri rómantík, sem er í álögum en þó laus við allt tál.Renheten eftir Andrzej Tichý
Fólk á jaðri samfélagsins og í lægstu stigum þess er endurtekið viðfangsefni í skrifum Tichýs: börn sem sæta slæmri meðferð, geðræn vandamál og vanlíðan, stéttaskipting og rasismi. Í smásagnasafninu Renheten lýsir hann því enn hvernig mannleg örlög hníga stundum óumflýjanlega í ógæfuátt.
Álandseyjar
Broarna eftir Sebastian Johans
Brottflutningur íbúa hafði mikil áhrif á eyríkið Álandseyjar kringum aldamótin 1900. Frásögnin hverfist um nokkra Álendinga sem hafa yfirgefið heimaslóðirnar. Johans sækir í eigin ættarsögu og dregur jafnframt upp breiða, sögulega mynd af tímabilinu milli 1904 og 1932. Fyrri heimsstyrjöld og borgarastríðið í Finnlandi hafa djúpstæð áhrif á líf hinna brottfluttu.
Hér fyrir neðan má svo finna íslensku tilnefningarnar, auk fyrri bóka nokkurra hinna tilnefndu höfunda sem finna má í hillum Borgarbókasafnsins.