Er búningurinn þinn særandi?
Menning og kynþáttur er ekki búningur
Menningarnám er tiltölulega nýtt hugtak í almennri umræðu á Íslandi. Við erum að verða flinkari að setja orð á tilfinningar og varpa ljósi á stöðu minnihlutahópa. Hins vegar getur verið flókið að átta sig á hvað er í lagi og hvað ekki - og ekki síst hvers vegna. Má ekkert lengur? spyrja sumir og það getur verið særandi fyrir aðra. Best er þegar við getum átt í yfirveguðum samræðum um flókin málefni, svo sem menningarnám.
Á öskudag er upplagt að líta í eigin barm og hugsanlega stöndum við okkur sjálf að því að stunda menningarnám. Hér eru nokkrar spurningar sem gætu hjálpað til við að skera úr um það:
Byggir búningurinn þinn á ákveðnum kynþætti, þjóðarbroti eða menningarkima?
Ef svarið er já, ættirðu að íhuga að skipta um búning. Þetta er líklega menningarnám.Ef svarið við fyrstu spurningu er já: Tilheyrir þú hópnum sem búningurinn vísar til?
Ef svarið er nei, þá er það menningarnám. Hér er ágætt að velta fyrir sér hvað það þýðir að fá uppruna eða menningu annarra lánaðan yfir daginn. Hafið í huga að fyrir marga er þetta ekki búningur heldur sjálfsmynd þeirra.Er búningurinn þinn fyndinn eða kynþokkafullur?
Ef búningurinn þinn er einhvers konar grín- eða kynþokkafull útgáfa af einstaklingi sem tilheyrir ákveðnum kynþætti, þjóðarbroti eða menningarkima, þá ættirðu að skipta. Líklega byggir búningurinn á staðalímynd og er særandi afbökun eða skopmynd af því fólki sem tilheyrir hópnum.Myndir þú klæðast þessum búningi meðal hópsins sem búningurinn vísar til?
Ef svarið er nei, þá þarftu ekki að hugsa þig frekar um. Þessi búningur er ekki heldur við hæfi á öskudaginn.
Vart þarf að taka fram að hér er átt við hópa sem til eru (eða hafa verið til) í alvörunni, ekki ofurhetjur, ævintýrapersónur eða persónur úr tilbúnum söguheimi. Pókahontas er til dæmis ekki tilbúinn söguheimur, enda byggir sagan á yfirtöku Englendinga á landsvæði frumbyggja Ameríku.
Þetta gæti verið tilvalið tækifæri til að ræða við börn um valdamisræmi (valdapíramídann), minnihlutahópa og mismunun.
Spurningarnar eru fengnar af vefsíðu Vestur-Virginíu háskólabókasafnanna.