Lesandinn | Pálína Magnúsdóttir

Pálína Magnúsdóttir borgarbókavörður er lesandi vikunnar og hún mælir með Virkum dögum eftir Guðmund G. Hagalín en hann var einmitt fyrsti bókafulltrúi ríkisins: 

„Ég las Virka daga eftir Guðmund G. Hagalín fyrst fyrir rúmum 20 árum. Bókin kom fyrst út á árunum 1936-38 í tveimur bindum. Þetta er ævisaga Sæmundar Sæmundssonar hákarlaskipstjóra, en Guðmundur segir í formála að hann hafi oft rekist á Sæmund á bryggjunni á Ísafirði, tekið hann tali og fékk þannig áhuga á lífshlaupi þessa manns. Þessi bók leitar á mig aftur og aftur og er mér afar minnistæð.

Bókin er frábær aldarfarslýsing auk þess að vera ævisaga Sæmundar. Hún fjallar um umkomulausan dreng sem er sendur til vandalausra 9 ára með ein nærföt og fötin sem hann stóð í. Það eru magnaðar lýsingar í bókinni um hvernig kirtlaveikur drengurinn, pasturslítill og hálfumkomulaus verður að manni, fær kraft í köggla, verður ungur skipstjóri á hákarlaskipi og bóndi meðfram sjósókninni.

Frásögnin af inntöku hákarlalýsis er sérstaklega minnisstæð. Hann laumaðist í hákarlatunnunna án vitundar heimilisfólksins, fleytti mesta hroðan ofan af, skellti ausu ofan í og saup á. Oft skilaði lýsið sér upp aftur ásamt öðru sem hann hafði innbyrt, en hann gafst ekki upp og reyndi bara aftur. Sjálfur heldur hann því fram að við þetta hafi kirtlaveikin læknast og hann tekið að braggast og verða að manni. Ég las svo í kjölfarið bækurnar Í verum, ævisögu Theodórs Friðrikssonar, en hann var vinnumaður hjá Sæmundi og einnig til sjós með honum og þær eru ekki síður áhugaverð lesning.

Guðmundur G. Hagalín var bæjarbókavörður á Ísafirði og hafði um margt nútímalega sýn á almenningsbókasöfn. Hann notaði ýmsar aðferðir við að lokka ungmenni til að lesa, kom þeim t.d. á bragðið með að lesa dönsku með því að bera í þau léttmeti. Þegar þau voru svo orðin fluglæs á dönsku sá hann til þess að þau læsu „betri“ bókmenntir, ef svo má að orði komast.

Guðmundur varð síðar fyrsti bókafulltrúi ríkisins og í hans tíð komu fram fyrstu lög um almenningsbókasöfn árið 1955.“

 

 

UppfærtFöstudagur, 4. júní, 2021 13:14
Materials