Helga Ferdinandsdóttir er í tveimur leshringjum og iðinn lestrarhestur
Helga Ferdinandsdóttir er í tveimur leshringjum og iðinn lestrarhestur

Lesandinn | Helga Ferdinandsdóttir

Helga Ferdinandsdóttir er bókmenntafræðingur að mennt og hefur sinnt margvíslegum störfum á því sviði. Til dæmis má nefna dómnefndastörf, m.a. fyrir Íslensku bókmenntaverðlaunin, ritstjórn tímaritsins Börn og menning og um þessar mundir kennir hún námskeið á vegum Endurmenntunar HÍ sem nefnist Jólabókaflóðið með Druslubókum og doðröntum. Helga deilir með okkur nokkrum bókum sem hún hefur nýlega lesið. 

Ég hef verið í tveimur öflugum leshringjum lengi, annar varð til í bókmenntafræðinni í HÍ og hinn þegar ég bjó í Brussel fyrir nokkrum árum. Báðir hittast ennþá nær mánaðarlega og á kóvíð tímum hefur það haldið gleðinni gangandi að ræða bækur á fjarfundum.

Í janúar var fyrri leshringurinn að lesa Álabókina eftir sænska menningarblaðamanninn Patrik Svensson í frábærri þýðingu Þórdísar Gísladóttur. Höfundurinn tvinnar saman sína persónulegu sögu og margslungið lífshlaup þessa furðufisks um leið og hann dregur lesandann með sér á djúpið í menningarsögunni. Mögnuð frásögn sem á endanum nær að hlykkja sig í kringum uppruna álsins og allt til endaloka alls. Mæli með Álabókinni.

Næsta bók sem við tökum fyrir er Valdið eftir Naomi Alderman sem Helga Soffía Einarsdóttir þýddi nýlega. Í skáldsögunni veltir Alderman því fyrir sér hvernig áhrif það hefði á samfélagið ef karlar væru veikara kynið. Það verður nóg að tala um.

Brussel-leshringurinn endurlas í janúar smásögur myndlistarkonunnar og rithöfundarins Ástu Sigurðardóttur. Kveikjan var vönduð þáttaröð Veru Sölvadóttur á Rás 1 um ævi Ástu, Helmingi dekkra en nóttin, sem var byggð að hluta á áður óbirtum sendibréfum.  Sögurnar eru brútal og búa yfir krafti sem hefur ekki dofnað á þeim 70 árum sem eru liðin frá því að elsta sagan birtist árið 1951. Febrúarbókin verður hin marglofaða Aprílsólarkuldi Elísabetar Jökulsdóttur sem hlaut á dögunum Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fagurbókmennta.

 

Merki
UppfærtMiðvikudagur, 17. febrúar, 2021 12:11
Materials