Innblástur!

Hvað erum við að lesa um þessar mundir? Það er von að þið spyrjið! Við tókum saman smá lista og vonandi hjálpar hann við að fá nýjar hugmyndir að lesefni, tónlist og myndefni. Hægt er að taka frá safngögnin neðst á síðunni. 

Glæpasaga vikunnar: 
Fórnarlamb 2117 eftir Jussi-Adler Olsen
Jussi Adler-Olsen er einn vinsælasti glæpasagnahöfundur Dana og hefur skrifað fjölda bóka sem þýddar hafa verið á íslensku. Í þessari nýjustu bók hans fylgjumst við áfram með Deild Q þar sem andlát við strönd Miðjarðarhafsins kemur leynilögreglumanninum Assad í slíkt ójafnvægi að hann dregst inn í spennandi fléttu sem teygir anga sína um alla Evrópu. 

Áhugavert vikunnar: 
Arfur Stiegs Larsson : lykillinn að morðinu á Olof Palme eftir Jan Stocklassa 
Rithöfundurinn og blaðamaðurinn Jan Stocklassa komst á snoðir um umfangsmikla rannsókn Steigs Larssons á morðinu á Olof Palme en morðið er eitt umtalaðasta sakamál í Svíþjóð og þótt víðar væri leitað. Eftir andlát Larssons kom í ljós að hann hafði í mörg ár rannsakað málið og gefur bók Stocklassa nýja innsýn inn í morðinu á forsætisráðherranum. 

Ljóðabók vikunnar: 
Í fjarveru trjáa eftir Ingunni Snædal. 

topptíu fossar

að minnsta kosti ekki
þessi Glymur sem allir eiga
að muna hvað heitir

fossar eru persónulegir
blautir fallgjarnir
freistandi
hver og einn verður að eiga
sína í friði

ég ætla að þegja yfir mínum

Ingunn Snædal verður gestur í Bókakaffi 26. febrúar næstkomandi ásamt Þóru Hjörleifsdóttir en þær ætla að ræða um ástir í bókmenntum, ástarsögur og ástarljóð. 

Þýðing vikunnar: 
Hin ósýnilegu eftir Roy Jacobsen í þýðingu Jóns St. Kristjánssonar 
Jón St. Kristjánsson hlaut í vikunni Íslensku þýingaverðlaunin fyrir þýðingu sína á norsku skáldsögunni Hin ósýnilegu eftir Roy Jacobsen. Höfundurinn var gestur á Bókmenntahátíð árið 2019. Í skáldsögunni segir frá lífi og tilveru fimm manna fjölskyldu sem býr á lítilli eyju við vesturströnd Norður-Noregs á fyrri hluta 20. aldar. Við kynnumst sögupersónum við daglega iðju og átökum þeirra við óblíða náttúru. Eyjan er heimur út af fyrir sig – í senn grimmur, kuldalegur, fagur og heillandi – sem höfundur lýsir af mikilli alúð. Gesti ber að garði og heimamenn róa í land og heimurinn utan eyjunnar lætur íbúa hennar aldrei alveg í friði, enda geta þeir ekki heldur án hans verið.

Tónlist vikunnar: 
Tónlist Hildar Guðnadóttur úr þáttaröðinni Chernobyl
Við erum enn að ná okkur eftir sigurgöngu Hildar Guðnadóttur og erum svo heppin að hægt er að nálgast tónlist Hildar á vínyl á safninu. 

Myndefni vikunnar: 
Poirot 
Þættirnir um spæjarann Poirot eftir bókum Agöthu Christie eru löngu orðnir sígildir og er það leikarinn David Suchet sem hefur gert þennan belgíska sérvitring ódauðlegan. 

Klassík vikunnar: 
Út í vitann eftir Virginiu Woolf.
Virginia Woolf er meistari skáldsögunnar og einn af stórrithöfundum 20. aldarinnar. Frásagnartækni hennar braut blað í sögu skáldsagnarhefðarinnar og er Út í vitann ein af hennar frægustu bókum. 

Barnabók vikunnar:
Ekkert að þakka eftir Guðrúnu Helgadóttur 

Hörkuspennandi bók um þau Evu og Ara Svein frá árinu 1995 sem finna dularfulla tösku á dimmum vetrardegi og flækjast í lögreglumál á milli þess að takast á við hverdagsleika íslenskra barna. 

UppfærtÞriðjudagur, 9. júlí, 2024 10:42
Materials