Draumar breyta um svip

Haustið færir okkur nýjar og gamlar sögur, birtu, liti, jafnvel drauma, tilveran breytir um ham. Það er tilvalið að heimsækja bókasafnið, kíkja í bók og skella sér síðan í bíó, hverfa inn í fegurð, láta sig dreyma.

„Sumir menn deyja sökum þess sem er utan við þá. Aðrir deyja af því að dauðinn er í þeim frá fornu fari og læsir sig um æðar þeirra innan frá. Þeir deyja allir. Hver með sínu lagi. Sumir falla í gólfið í miðri setningu. Aðrir kveðja friðsamlega í draumi. Slokknar þá draumurinn eins og þegar kvikmyndinni er ekki varpað á tjaldið meir? Eða breytir bara draumurinn um svip, og öðlast nýja birtu og nýja liti? Og er þetta á nokkurn hátt merkjanlegt fyrir þann sem dreymir?“

Á þessum orðum hefst skáldsagan Svar við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson. Aldraður bóndi, Bjarni frá Kolkustöðum, skrifar til Helgu, ástkonu sinnar forðum, ást í meinum sem hann hefur svo sannarlega ekki gleymt þó að tíminn hafi liðið og allt breyst. Kannski er þetta saga sem grundvallast á draumum sem búa í brjósti manneskjunnar, draumum sem ljá henni bæði jarðtengingu, tilgang og mögulega vængi. Draumarnir snúast einnig um val hverrar manneskju og stökk sem þarf að taka, jafnvel trúarstökk óháð því hver trúin og draumurinn er: guð, land, fósturjörð, sjálfsmynd, ábyrgð, tekjur, manneskja, ástin. Ef stígið er inn í einn draum - þá svíkur manneskjan mögulega annan draum, aðra manneskju, átthaga og jafnvel sjálfan sig. 

„Kæra Helga.
    Þegar þú varðst ófrísk og baðst mig fylgja þér suður, kom ég að vegamótum í lífinu. Vegslóðinn sem ég hafði gengið fram að því greindist nú í tvennt. Ég fór þá báða. Og hvorugan almennilega þó. Í þeim skilningi að ég gekk annan þeirra – en hafði huga minn allan hinum megin. Hjá þér.“

(Svar við bréfi Helgu, bls. 82)

Nú hefur verið gerð kvikmynd eftir sögunni sem var frumsýnd í upphafi hausts. Leikstjórinn er Ása Helga Hjörleifsdóttir, en áður hefur hún skapað kvikmynd eftir skáldsögu Guðbergs Bergssonar, Svanurinn.

Aðlögun frá bók að kvikmynd er aldrei létt verk og þarfnast hugrekkis, að taka stökk út í óvissuna, vera trú fagurfræði beggja verka. Svar við bréfi Helgu, skáldsaga og kvikmynd eru sjálfstæð listaverk sem tengjast sterkum tímalausum ástarböndum.

Skáldsagan hefur fangaði athygli og hrifningu lesenda frá því hún kom út árið 2010, bæði hér heima sem og erlendis. Þessi epíska ástarsaga er listilega skrifuð, tungumálið er seiður sem í býr mannlegt næmi og dásamlegur húmor. Bergsveinn Birgisson hefur gefið frá sér fjölda verka; skáldsögur, ljóð og fræðirit:

Íslendingurinn (1992)
Innrás liljanna (1997)
Landslag er aldrei asnalegt (2003)
Heimförin (2004)
Handbók um hugarfar kúa (2009)
Svar við bréfi Helgu (2010)
Drauganet (2011)
Geirmundar saga heljarskinns (2015)
Leitin að svarta víkingnum (2016)
Lifandilífslækur (2018)
Kolbeinsey (2021)

Sjá greinar, bókmenntarýni og æviágrip um rithöfundinn Bergsvein Birgisson á Bókmenntavefnum og bókalista hér að neðan með verkum hans sem þú getur lánað á safninu.
 

 

 

Materials