Ugla Stefanía
Ugla Stefanía. Mynd / Oddvar Hjartarson

Bækurnar sem breyttu lífi mínu | „Fyrstu konurnar sem ég tengdi við“

Ugla Stefanía, kynjafræðingur og sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks, hefur lesið sér til gagns og gamans frá því að hún man eftir sér. Hún les í skorpum og dýrkar ævintýrabækur og vísindaskáldskap. En hvaða bækur skyldu hafa haft hreyft mest við Uglu um ævina?

„Ég er svona hámlesandi,“ segir Ugla og útskýrir að hún taki góða slurka af og til þar sem hún lesi heilu bækurnar en svo ekkert þess á milli. „En ég á fullt af bókum og finnst mjög gaman að lesa.“

Ugla segir lestraráhugann hafa kviknað í æsku. Faðir hennar hafi lesið mikið af bókum fyrir hana og bróður hennar þegar þau voru lítil.

„Við vorum í svona Disney-bókaklúbbi og fengum sendar stuttar sögur reglulega. Svo las ég allskonar bækur í kjölfarið og nú elska ég að hella mér út í einhverja góða bókaseríu.“

Ugla er búsett erlendis, nánar tiltekið í bænum Brighton á suðurströnd Englands, en finnst gaman að heimsækja Borgarbókasafnið og kíkja á hinsegin safnkostinn þegar hún er stödd á Íslandi. Hún segir að sér þyki „eitthvað svo ótrúlega dýrmætt“ að fara á bókasafn og hafa aðgengi að bókum.

„Í raun finnist mér ótrúlegt hvað fólk er lélegt að nýta sér þetta frábæra rými, því þetta er eitt af fáu fríum rýmum sem við eigum til í nútíma samfélagi. Áfram bókasöfn!“

Les allt en vill engar puntudúkkur

Spurð hvers konar bækur hún lesi helst segist Ugla eiginlega getað lesið hvað sem er.

„Svo lengi sem sagan hefur kvenhetjur sem eru meira en einhverjar puntdúkkur og spila mikilvægt hlutverk,“ tekur hún fram. „En ég er og hef alltaf verið mikið fyrir ævintýrabækur og vísindaskáldsögur, líklegast af því að ég spila mikið af tölvuleikjum. Mér finnst eitthvað svo spennandi við heima sem eru framandi og öðruvísi og þar sem allt er mögulegt.“

Beðin um að nefna bækurnar sem hafa haft hvað djúpstæðust áhrif á Uglu er hún ekki lengi til svars.

Ísfólkið

„Hver man ekki eftir Ísfólkinu eftir Margit Sandemo,“ segir Ugla og brosir. „Sem unglingur las ég allar bækurnar spjaldanna á milli. Bækurnar eru fullar af kvenhetjum og nornum, sem voru allar mismunandi og spiluðu mismunandi hlutverk í sögunum. Þetta voru fyrstu bækurnar sem ég las þar sem ég gat virkilega tengt við konurnar. Þetta voru svona fyrstu konurnar sem ég tengdi við.“

Wayfarer-serían

„Mér fannst eitthvað svo ótrúlega huggulegt við að lesa þessar bækur eftir Becky Chambers,“ nefnir Ugla. „Þær eru vísindaskáldsögur sem gerast út í geimi og eru mjög hinsegin-vænar og skemmtilegar.“

Hunger Games-serían

„Þessar bækur eftir Suzanne Collins voru ein besta bókarsería sem ég hef lesið – mér fannst eitthvað svo ótrúlega fallegt og erfitt við hana. Mjög átakanleg en samt mikilvæg sería um það hvernig ein manneskja getur breytt heiminum.“