
Viðtal | Jólalag Borgarbókasafnsins 2025
Jólalagakeppni Borgarbókasafnsins var haldin í fjórða skiptið í ár. Níu lög voru send inn og voru þau jafn ólík og þau voru mörg. Sungið var um áramótaheit, Netflix jólamyndir, tilkomu jólanna og að eyða jólunum með þeim sem maður elskar.
Í dómnefndinni í ár sátu þau Anna Magnúsdóttir Eirúnardóttir og Agnes Jónsdóttir, sérfræðingar hjá Borgarbókasafninu, og Ingi Hrafn Hilmarsson, leikari og leikstjóri en hann bar sigur úr býtum í jólalagakeppninni á síðasta ári. Dómnefndin var einróma um val á jólalagi ársins en var lagið Jól, Ó þessi jól eftir Maríu Agnesardóttur og Jóhann Víði Erlendsson valið sigurlagið.
Í umsögn dómnefndar segir: “Lagið Jól, Ó þessi jól er vel unnið í alla staði. Lagið á vel heima í útvarpi, enda er auðvelt að dilla sér við grípandi laglínuna. Söngur Maríu er góður og hjartnæmur textinn nær að kjarna þá upplifun sem mörg okkar tengja við jólin. Jól, ó þessi jól er frábært jólalag sem enginn á að láta fram hjá sér fara og ratar vonandi í útvarp flestra landsmanna um jólin.“
Hægt er að hlusta á lagið á streymisveitunni Spotify
Lagahöfundar
Höfundar vinningslagsins eru parið María og Jóhann Víðir sem eiga saman soninn Loga Þröst. Í miðju jólaamstrinu gáfu þau sér tíma til að svara nokkrum spurningum og segja betur frá gerð lagsins.
Hvernig varð lagið til?
Saman svara þau: „Við vildum gera jólalag saman en höfum ekki haft mikinn tíma vegna þess við erum með einn 4 mánaða gamlan strák sem fæddist í ágúst. Einhvern veginn fundum við tíma á milli lúra og þá kom þetta skemmtilega lag“. Jóhann útsetti og hljóðritaði lagið sem fyrst var samið á gítar, María samdi laglínuna en textann gerðu þau saman.
Er lagið tileinkað einhverjum sérstökum?
María svarar: „Afi minn hann Þröstur Lýðsson, hefur beðið um frumsamið jólalag fyrir sig í mörg ár. Þann 20. desember fagnaði hann 70 ára afmælinu sínu og fannst okkur því tilvalið að henda loksins í eitt jólalag fyrir elsku kallinn. Hann afi er minn helsti stuðningsaðili þegar það kemur að tónlist og reyni ég að heimsækja ömmu og afa að minnsta kosti einu sinni í viku“. Aðspurð hvað afanum fannst svo um jólalagið sögðu þau að hann hafi verið hæstánægður þegar hann heyri lagið fyrst og viss um að þau myndu slá í gegn með jólalagi!


Í texta lagsins er sungið um hefðir og minningar, eru þið með ákveðnar jólahefðir?
María segir fjölskyldu sína vera með tvær hefðir frá því að hún fæddist. Það er laufabrauðsgerð hjá ömmu og afa, síðan möndlugrautur á aðfangadag klukkan 12. „Skemmtilegt að segja frá því að við bættum við möndlugrautahefðina og erum alltaf með Bingó eftir á, þar sem nammi eða litlar gjafir eru verðlaunin. Við fjölskyldan erum oft í sitthvoru lagi um jólin þannig mér finnst þetta yndislegt“ segir María. Hjá Jóhanni er hangikjöt hjá ömmu og afa á jóladag sem er alltaf notalegt.
Hafi þið verið að semja lög lengi?
María byrjaði að semja lög þegar Þröstur, afi hennar, gaf henni gítar í 14 ára afmælisgjöf. Síðan þá hefur hún samið öll sín eigin lög undir tónlistarnafninu MAIAA, sem við mælum með að hlusta á streymisveitum. Jóhann er flínkur gítarleikari sem hefur einnig samið mörg lög og er duglegur pródúsent líka. Þau spiluðu saman á Iceland Airwaves núna í nóvember þar sem María (MAIAA) var að spila sín lög og Jóhann var í hljómsveitinni á gítar.
Hvernig fréttu þið af jólalagakeppninni?
„Ég held ég hafi nú bara séð þetta auglýst á Facebook og ég hugsaði með mér; af hverju ekki að prófa taka þátt, versta falli vinnur maður ekki“ segir María.
Hvar er hægt að hlusta á jólalag Borgarbókasafnsins 2025?
Lagið er komið út á Spotify undir nafninu Mæjó, þar sem María er kölluð Mæja og með Jóhanni þá er það Mæjó.
Höfundur lags: María Agnesardóttir
Texti eftir: María Agnesardóttir og Jóhann Víðir Erlendsson
Producering: Jóhann Víðir Erlendsson
Flytjandi: María Agnesardóttir
Hægt er að fylgja þeim á samfélagsmiðlum hér:
María: @isthismaiaa
Jóhann Víðir: @johannvidir92
