Hildur Björgvinsdóttir tekur við styrk fyrir hönd Borgarbókasafnsins
Hildur Björgvinsdóttir

Verkefnið Spjöllum með hreim hlýtur styrk

Borgarbókasafnið hlaut nýverið veglegan styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála til að setja á laggirnar verkefnið Spjöllum með hreim þar sem boðið er upp á ókeypis samverustundir fyrir þau sem vilja æfa sig að tala íslensku. Styrkurinn gerir safninu kleift að þróa áfram íslenskukennslu sem hófst fyrir tveimur árum síðan, fjölga skiptum og bjóða upp á fjölbreyttari samverustundir en áður. Kennslan er í höndum Hildar Loftsdóttur og Sigurðar Hermannssonar og munu fleiri kennarar bætast í hópinn áður en langt um líður. Hildur Björgvinsdóttir verkefnastjóri viðburða og fræðslu tók við styrknum fyrir hönd Borgarbókasafnsins en hún hefur ásamt Martynu Daniel, sérfræðingi á sviði fjölmenningar, unnið að þróun og framkvæmd verkefnisins.

Spjöllum með hreim hefst í mars með fjórum mismunandi samverustundum:

Lesum og spjöllum – leshringur þar sem við lesum áhugaverðar bækur. Hentar þeim sem hafa góðan grunn í íslensku.

Föndrum og spjöllum – samverustundir fyrir byrjendur í íslensku þar sem við spjöllum saman í afslöppuðu umhverfi og föndrum eitthvað einfalt og skemmtilegt.

Skoðum og spjöllum – við hittumst, förum á söfn og sýningar í miðborginni, og spjöllum á íslensku um það sem fyrir augu ber.

Spilum og spjöllum – samverustundir fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna þar sem við spilum ýmis konar borðspil sem hjálpa til við að auka orðaforðann.

Sjá nánari upplýsingar um dagskrána HÉR.

Styrkþegar við athöfn í ráðuneytinu 28. febrúar.

Alls 19 verkefni og rannsóknir hlutu styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála. Styrkurinn var veittur við hátíðlega athöfn í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu 28. febrúar s.l. Sjá frétt ráðuneytisins...

Verkefnið Spjöllum með hreim fellur vel að einni af þremur megináherslum sjóðsins sem kveður á um að verkefni skuli stuðla að virkri notkun íslensku í gegnum félagslega viðburði og styðja þannig við hefðbundið íslenskunám.