Hópur ræðir stöðu innflytjenda

Traust og upplýsingamiðlun | Opið samtal

Á Torginu fór fram opið samtal við Joönnu Marcinkowska, verkefnastýru New in Iceland. Joanna ræddi upplýsingamiðlun og stöðu New in Iceland, sem sinnir ráðgjafaþjónustu við innflytjendur um allt sem tengist lífinu á Íslandi. Á aðeins hálfu ári hefur New in Iceland sinnt yfir þúsund fyrirspurnum. En hvernig hefur Joönnu og hennar teymi tekist að vinna sér inn traust meðal notenda þjónustunnar á því hálfa ári sem þau hafa verið starfandi?

„Tungumálakunnátta og þekking ráðgjafa New in Iceland, sem meðal annars byggir á reynslu þeirra sem innflytjendur á Íslandi, eru lykilþættir í að skapa traust meðal notenda. Boðið er upp á ráðgjöf á átta mismunandi tungumálum. Notendur geta hringt, sent tölvupóst og fyrirspurn á netspjalli á heimasíðunni en líka mætt á svæðið og borið upp erindi sitt á staðnum.“ segir Joanna.

Eitt af grunngildum New in Iceland er valdefling. Joanna lýsir starfinu með eftirfarandi hætti: „Unnið er með styrkleika og getu hvers og eins til að sækja sér upplýsingar. Það fer eftir stöðu og eðli fyrirspurnarinnar hvaða miðlunarleiðir henta hverjum og einum. Við hjálpum fólki að fóta sig sjálft, stundum hentar einstaklingsráðgjöf en við bjóðum líka upp á vettvang þar sem margir koma saman til að deila upplýsingum og reynslu.“

Joanna Marcinkowska

Hópur viðstaddra var sammála um mikilvægi almenningsrýma sem skapa vettvang til upplýsingamiðlunar og umræðna þar sem hver fær að skilgreina hlutverk sitt sjálfur. Eins og einn notandi minntist á: „Það er gott að vera í opnu rými þar sem útgönguleiðin er líka sýnileg, þú getur komið en líka alltaf farið þegar þú vilt,  eins og á Torginu í Grófinni“.

Borgarbókasafnið mun halda áfram að styrkja lýðræðisumræðuna með opnum fundum á Torginu. Næstu fundir eru hannaðir í takt við  þarfagreiningu New in Iceland. „Það er mikil þörf á aðgengi að upplýsingum sem varða húsnæðismarkaðinn og vinnumál“ segir Joanna.

Við þökkum kærlega fyrir komuna og hlökkum til að sjá bæði ný og kunnugleg andlit á næstu opnu samtalsfundum á Torginu sem unnir eru í samstarfi við New in Iceland:

Aðgengi að vinnumarkaði, þriðjudag 21. september
Aðgengi að húsnæði , þriðjudag 19. október

Flokkur
UppfærtÞriðjudagur, 31. janúar, 2023 15:35