Söguhetjan Nord
Söguhetjan Nord

Söguheimur NORD hlýtur hæsta styrk Barnamenningarsjóðs 2019

Verkefni Borgarbókasafnsins, Söguheimur NORD – Upplifun, sköpun, þátttaka og samvera, hlaut hæsta styrk Barnamenningarsjóðs á Degi barnsins 26. maí, að upphæð 18.585.000 kr. Um er að ræða fyrstu úthlutun sjóðsins sem kynnt var við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu. Stefnt er að því að opna söguheiminn í menningarhúsi Borgarbókasafnsins í Gerðubergi á haustmánuðum 2019. Um er að ræða samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins og tvíeykisins Camillu Hübbe og Rasmus Meisler, rit- og myndhöfundar sögunnar um stúlkuna Norður Stardust Jensen.

Meginmarkmið verkefnisins eru:

- að skapa rými og aðstöðu fyrir ungt fólk í Gerðubergi þar sem lögð er áhersla á upplifun, sköpun, þátttöku og samveru.

- að byggja við og nýta innblástur úr söguheimi NORD eftir rithöfundinn Camillu Hübbe og teiknarann Rasmus Meisler sem umgjörð og þema. ( Sjá http://www.nord-app.com/)

- að opna ungu fólki sýn inn í heim stafrænna bókmennta sem hafa rutt sér til rúms á Norðurlöndum og víðar.

- að hvetja til skapandi samspils á milli bókmennta, menningararfs, tækni og loftslagsumræðu.

- að þróa leiðir til að vinna með ungu fólki, virkja það til lýðræðislegrar þátttöku og skapa því vettvang til að koma saman, læra, skapa og leika sér á eigin forsendum.

Marglaga miðlun

Útgangspunktur verkefnisins er að víkka út ramma hefðbundinna bókmennta, að miðla sögu í gegnum ólíka miðla og ná þannig til breiðari hóps en áður. Í sögunni um stúlkuna Nord nýtir höfundurinn sér sameiginlegan menningararf Norðurlandanna, norrænu goðafræðina. Í sögunni bregður fyrir örlaganornunum Urði, Verðandi og Skuld auk þess sem Níðhöggur og Ratatoskur fara með stórt hlutverk. Þar er tekist á við stórar spurningar og alvarlegar áskoranir sem blasa við ungmennum í dag, s.s. loftslagsbreytingar af mannavöldum og áhrif þeirra á lífríki jarðar og framtíð komandi kynslóða. Einnig tekst aðalpersónan á við sjálfa sig og gengur í gegnum krefjandi þroskaferli um leið og henni er ætlað að bjarga heiminum.

NORD er þátttökuverkefni þar sem ungmennum á aldrinum 10-16 ára gefst tækifæri til upplifa, skapa, fikta, lesa og miðla hvort sem þau kjósa að gera það í einrúmi eða í samvinnu við aðra. Söguheimurinn býður upp á ýmsa miðlunarmöguleika í leik og kennslu og ætlunin er að kennarar og frístundastarfsfólk geti nýtt aðstöðuna með fjölbreyttum hætti og tengt þvert á ólíkar námsgreinar, s.s. íslensku, náttúrufræði, samfélagsfræði, dönsku, forritun, myndlist, hönnun og lífsleikni.

Tilraunaverkstæði Borgarbókasafnsins hefur verið í stöðugri þróun undanfarin tvö ár sem svæði þar sem börnum og unglingum gefst tækifæri til að fikta, gera tilraunir og læra að forrita. Hugmyndafræði verkstæðisins verður notuð til að ljá notendunum hlutverk innan rýmisins frá upphafi með hjálp tækni og athugana.

Sögunni um stelpuna NORD sem heldur út í óvissuna til að bjarga móður sinni og heiminum öllum er miðlað með eftirfarandi hætti:

- Gagnvirkur vefur (útg 2018), á dönsku og íslensku (væntanlegur á ensku, norsku, sænsku og færeysku). Þar er að finna marglaga frásögn þar sem fléttað er saman rit- og talmáli, teikningum, ljósmyndum, hreyfimyndum, hljóði og grafík.
Vefurinn var gerður aðgengilegum íslenskum notendum með styrk frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu 2018.

- Bók á prenti (á dönsku) sem gefin var út af Høst og Søn – 2018

- Kennsluefni eftir Ayoe Quist Henkel, prófessor í stafrænum barnabókmenntum, sem gefið er út af Gyldendal (á dönsku)

- Farandsýning undir hatti verkefnisins „Fang fortællingen“ sem ferðast á milli bókasafna í Danmörku 2018-2020

- Kvikmynd í smíðum í Danmörku

- Bók á prenti (í íslenskri þýðingu) – væntanleg haustið 2019 - gefin út af forlaginu Dimmu

- Söguheimur NORD - gagnvirkt sýningar- þátttöku- og samverurými í Gerðubergi – nóvember 2019 –desember 2020

 

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir:

Guðrún Baldvinsdóttir, verkefnastjóri bókmennta
gudrun.baldvinsdottir@reykjavik.is; 411 6182

Flokkur
Merki
UppfærtMánudagur, 11. apríl, 2022 15:19