Jens Einarsson, sigurvegari í Jólalagakeppni Borgarbókasafnsins 2023
Jens Einarsson, sigurvegari í Jólalagakeppni Borgarbókasafnsins 2023

Úrslit | Jólalag Borgarbókasafnsins 2023

Úrslit í jólalagakeppni Borgarbókasafnsins 2023 voru tilkynnt við hátíðlega athöfn í Borgarbókasafninu í Úlfarsárdal síðastliðinn föstudag, 8. desember. Í dómnefnd sátu þau Hildur Björgvinsdóttir, verkefnastjóri í deild miðlunar og nýsköpunar hjá Borgarbókasafninu, Þorgrímur Þorsteinsson, tónlistarmaður og sérfræðingur í Borgarbókasafninu í Úlfarsárdal og Jón Ólafsson, formaður dómnefndar, en hann er landsmönnum að góðu kunnur fyrir störf sín í tónlist og fjölmiðlum, meðal annars í hljómsveitinni Nýdönsk

Alls bárust 17 lög í keppnina í ár hvaðanæva úr heiminum en 7 þeirra bárust að utan úr heimi; Dallas í Bandaríkjunum, Wrexham á Írlandi, Englandi, Slóveníu og Póllandi. Erlendu keppendurnir voru spurðir að  því hvernig í ósköpunum þeir fundu keppnina okkar á litla Íslandi og höfðu flest fundið hana með því að leita sérstaklega að jólalagakeppnum á leitarvélinni Google með því að slá inn leitarorðunum „christmas song contest“. 

Lögin voru afar fjölbreytt, meðal annars mátti heyra dillandi popp, raftónlist, kántrý, dægurlög, þjóðlagastemmningu og ljúfar ballöður. Textarnir voru einnig af ýmsum toga, sumir tengdir hátíðahöldunum, aðrir tilhlökkun og jólaandanum, og enn aðrir góðri jólastemmningu. Flytjendur voru á öllum aldri og höfundar einnig. Dómnefnd þurfti því að hafa sig alla við til þess að komast að niðurstöðu. Þó höfðu þau öll sérstakar mætur á krúttlegu dægurlagi með fallegum texta og góðum boðskap. Það var lagið „Það snjóar á alla“ eftir lagahöfundinn Jens Einarsson

 

Hver er lagahöfundur Jólalags Borgarbókasafnsins 2023? 

Jens er fæddur í Hafnarfirði en ólst upp hjá foreldrum í átta systkina hópi á Höfn í Hornafirði. Hann flutti til Reykjavíkur árið 1985 og bjó á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi þar til hann flutti til Egilsstaða fyrir 7 árum. Jens hef lengst af starfað sem ritstjóri, blaðamaður og ljósmyndari. Aðaláhugamál hans, fyrir utan tónlistina, er hestamennska. 

 

Hvernig varð lagið lagið til? 

Þegar haft var samband við Jens og honum tilkynnt um úrslitin lét hann vita hann gæti því miður ekki mætt sjálfur á úrslitin þar sem hann er búsettur á Egilsstöðum. Hins vegar myndu börnin hans tvö sem syngja lagið mæta í hans stað. Hann lét fylgja með að við skyldum ekki búast við litlum börnum þar sem þau væru orðin fullorðin og ráðsettir foreldrar í dag. Lagið varð nefnilega til fyrir nokkrum árum síðan.  

13 ára stelpa og 8 ára strákur úti í sólinniSystkinin Torfhildur og Vilhelm Örn á yngri árum

Lagið var einfaldlega hugmynd að jólagjöf til fjölskyldu og vina, árið 2005 eða 2006. Jens var þá búinn að fá sér M-box, sem ýmsir muna eflaust eftir, og farinn að hljóðrita eigin tónlist sér til gamans. Börnin hans, Torfhildur Hólm og Vilhelm Örn voru 13 og 8 ára þegar þau sungu lagið með aðstoð vina, Báru og Áslaugar, sem syngja með í viðlaginu. Æskuvinur og bekkjarbróðir frá Höfn í Hornafirði, Grétar Örvarsson, sem er landsþekktur tónlistarmaður, sá um undirleik og útsetningu.

Börn og snjókarlSystkinin úti í snjónum fyrir nokkrum árum síðan

 

Hvað eru söngvararnir ungu að gera í dag? 

Torfhildur Hólm er hjúkrunarfræðingur, maðurinn hennar heitir Þórir Rúnar Sveinsson og þau eiga þrjá syni. Vilhelm Örn er rafvirki, konan hans heitir Karen Mjöll Þorfinnsdóttir og þau eiga eina dóttur.

 Jólatré, maður og kona með ungabarnFrá úrslitaathöfninni

 

Hvar er hægt að hlusta á jólalag Borgarbókasafnsins 2023? 

Nú er hægt að hlusta á lagið „Það snjóar á alla“ á tveimur streymisveitum með því að smella á hlekkina hér að neðan.

Auk þess er Jens með sínar eigin rásir á Spotify og á SoundCloud en þar er hægt að nálgast aðra tónlist frá honum.  

 

ÞAÐ SNJÓAR Á ALLA 

Snjókornin falla,  

ég finn það þó varla 

þau kyssast og bráðna,  

framan í mér. 

 

Þau sikksakka niður,  

í brjóstinu friður 

í búðinni kliður,  

fólkið kemur og fer. 

 

Það styttist til jóla,  

frídaga í skóla 

og hjartað það skoppar,  

innan í mér. 

 

Ég má ekki gleyma,  

ég bið Guð að geyma 

þá sem hvergi eiga heima,  

fólk með sár inn í sér. 

 

Viðlag: 

Það eru jól fyrir alla, konur og kalla 

með kosti og galla, fólk eins og mig. 

Það snjóar á ríka, en fátæka líka 

já fátæka og ríka, fólk eins og þig. 

 

Höf: Jens Einarsson 

Flokkur
UppfærtFimmtudagur, 14. desember, 2023 12:25