Rafbókasafnið | „Þetta er þvílík fjársjóðskista“

Margrét Tryggvadóttir, rithöfundur og myndritstjóri, sótti í brunn Rafbókasafnsins við gerð síðustu skáldsögu sinnar, Sterk, sem á síðasta ári hlaut Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur. Hún segir safnið hvalreka fyrir bæði rithöfunda og almenning, hvort sem tilgangurinn er að leita uppi metsölubækur eða bókmenntir sem eru áhugaverðar og öðruvísi þótt þær séu kannski ekki á allra vörum.

„Mér finnst þetta ótrúlega góð þjónusta og ofboðslega vel staðið að vali á bókatitlum. Þarna er ekki verið að taka inn einhverjar metsölubækur eingöngu og hálfpartinn þröngva þeim upp á mann, eins og er gert víða annars staðar, heldur boðið upp á virkilega vandaðar, áhugaverðar og fjölbreyttar bækur. Bækur sem ég hefði annars kannski aldrei rambað á,“ segir Margrét um Rafbókasafnið.

Hún bætir við að það skipti líka máli fyrir sig sem rithöfund, ritstjóra og bókmenntafræðing að hafa aðgang að efni sem ekki allir eru að lesa eða hlusta á. „Maður er alltaf að reyna að finna áhugaverðan vinkil og þá er mikilvægt að geta sótt innblástur í eitthvað annað en vinsælasta efnið sem er á boðstólum.“

Hljóðbók, rafbók eða pappír?

Rafbókasafnið var sett á laggirnar árið 2017 og stóð upphaflega notendum Borgarbókasafnsins til boða. Síðan þá hefur fjöldi aðildarsafna bæst við og safnkosturinn vaxið gífurlega samhliða því, en í dag er má nálgast þúsundir titla, bæði raf- og hljóðbækur, í gegnum safnið.

„Ég sæki meira í hljóðbækurnar,“ segir Margrét, spurð hvernig hún nýti sér safnkostinn. „Ég á hund og nota hjól sem aðalsamgöngumáta og þá finnst mér gott að nota tímann og hlusta. Svo finnst mér stundum þægilegt að setja á hljóðbók þegar ég er að þrífa eða stússast eitthvað úti í garði.“

Margrét tekur fram að hún lesi þó líka daglega bækur á rafrænu formi eða pappír og þá yfirleitt á kvöldin áður en hún fer að sofa. „Síðan finnst mér ofboðslega þægilegt að nota rafbækur á ferðalögum, enda erfiðara að burðast með bækur á pappírsformi. Ef textinn er hins vegar mjög „bókmenntalegur“ og ekki mikið drifinn áfram af atburðarás þá finnst mér gott að hafa bókina í pappírsformi. Þannig að ég nálgast bókmenntir á alls konar formi. Ætli megi ekki bara segja að ég sé stórnotandi á bækur,“ segir hún glaðlega.

Sökkti sér ofan í frásagnir trans fólks

Eru einhverjar tilteknar bókmenntagreinar sem heillar Margréti frekar en aðrar? „Ég les og hlusta á alls konar. Þegar ég er í vinnunni að ritstýra þá er ég oft að vinna með ævisögur eða fræðilegt efni og sæki því kannski minna í þannig efni utan vinnu. En þegar ég er að skrifa eigið efni sem er hugsað fyrir börn og ungt fólk þá reyni ég að lesa og hlusta á bókmenntir sem eru ætlaðar þeim aldurshópi, bæði til að vera meðvituð um það sem er í gangi í þeim geira og eins til að sækja mér áhrif annars staðar frá.“

Margrét nefnir bók sína Sterk sem dæmi. Sterk fjallar um trans stelpu og til að koma viðfangsefninu sem best frá sér segist hún hafa lagst í mikla rannsóknavinnu. Hins vegar hafi ekki verið mikið af efni á íslensku um trans fólk og því komið sér vel að geta nálgast slíkt efni á ensku í Rafbókasafninu. 

„Það sem þetta safn hefur gert fyrir mig er að veita mér aðgang að efni sem er erfitt að nálgast með öðrum hætti. Eflaust hefði ég aldrei dottið niður á jafn marga demanta annars staðar. Þetta er þvílíkur fjársjóður.“

Dáist að Stephen King

En mælir Margrét með einhverju sérstöku á Rafbókasafninu, tiltekinni bók eða ákveðnum höfundi? Hún hugsar sig um. „Ég myndi vilja mæla með ungmennabókum Angie Thomas,“ segir hún eftir stutta umhugsun. „Sérstaklega The Hate U Give, en hún fjallar um Starr Carter sem verður vitni að því að lögreglumaður skýtur vin hennar án nokkurrar ástæðu. Bókin kallast á við sannsögulega atburði sem hafa verið kveikja að mótmælum sem tengjast Black Lives Matter hreyfingunni. Algjörlega frábær bók þar sem þroskasaga hinnar ungu Starr er tengd baráttu undirsettra hópa fyrir mannréttindum sín-um.“

Hún segist síðan halda upp á ýmsa höfunda sem skrifa bækur fyrir ungmenni, en finnst enginn einn standa upp úr. „Svo á ég mér uppáhaldsbækur eftir ýmsa höfunda, sem eru kannski ekki beint minn tebolli, en eru svo ótrúlega vel skrifaðar og vel unnar að það er ekki annað hægt en að dást að þeim. Til dæmis er einn af þeim höfundum sem mér finnst gaman að sjá hvernig skrifar – þótt ég hafi ekki endilega smekk fyrir bókunum – Stephen King. Hann dregur upp myndir á svo ótrúlega áhrifaríkan hátt.“

Er Margrét sem sagt ekki mikið fyrir hrollvekjur?

„Ég á svolítið erfitt með efni sem er bannað börnum,“ játar hún og hlær.

Dýrmætur gluggi út í heim

Síðasta bókin sem Margrét tók á Rafbókasafninu var My Sister, the Serial Killer á ensku eftir nígeríska rithöfundinn Oyinkan Braithwaite, sem heitir Systir mín, raðmorðinginn í íslenskri þýðingu. „Mér fannst hún mjög skemmtileg,“ segir hún. „En fyrir mér eru bækur oft gluggi inn í heima, staði og menningu sem annars er erfitt að heimsækja, jafnvel þótt þangað sé hægt að fljúga. Þessi bók gerist í Nígeríu, heimalandi höfundarins og er einmitt ekki síst eftirminnileg vegna sögusviðsins.“

Að mati Margrétar er sjálft Rafbókasafnið og safnkostur þess ekki síður dýrmætur gluggi út í heim. „Í gegnum það hef ég til dæmis kynnst ofboðslega mörgum flottum höfundum sem ég hef svo kynnt mér betur í framhaldinu. Það leynir sér ekki að starfsfólkið fylgist vel með því sem er að gerast í bókmenntaheiminum og leggur mikinn metnað í að bjóða upp á gott efni.“

Hér finnur þú allar upplýsingar um Rafbókasafnið. Eina sem þú þarft er bókasafnskort í gildi hjá einhverju aðildasafna Rafbókasafnsins. 

Flokkur
UppfærtMánudagur, 22. ágúst, 2022 10:38