Verkstæðið Grófinni

Hefur þú heimsótt Verkstæðið á fimmtu hæð Borgarbókasafnsins Grófinni? Vissirðu að þar er að finna græjuparadís margmiðlunar? Hvort sem þú þarft að klippa afmælisvídjó fyrir ömmu þína eða taka upp stef fyrir nýtt hlaðvarp sem þú ert að vinna með gömlum bekkjarfélaga úr Landbúnaðarháskólanum, þá finnurðu græjurnar á fimmtu hæðinni. 

Verkstæðið er fullbúið iMac tölvum og midi hljómborðum, með tónlistarforritum eins og Ableton Live, GarageBand, Logic Pro X og Reaper.

Í tölvum Verkstæðisins er aðgangur að Adobe Creative svítunni (Photoshop, InDesign o.fl.) og Final Cut Pro fyrir myndbandagerð, myndvinnslu og hönnun.

Á staðnum er grænskjár (e. green screen) sem gestum býðst að nota og á Fiktdögum er hægt að óska sérstaklega eftir leiðsögn og kennslu. Fiktdagar í Grófinni eru á miðvikudögum milli kl 15 og 18. 

Nemandi Tjarnarskóla í tíma á Verkstæðinu

Skólahópar hafa líka nýtt Verkstæðið sem skólastofu. Tjarnarskóli býður nemendum sínum, sem eru á unglingastigi, upp á mismunandi valáfanga. Einn af þessum áföngum er tónsmíða- og tölvuáfangi sem kenndur er á Verkstæði Borgarbókasafnsins í Grófinni. Hér má lesa viðtal við Margréti, skólastjóra Tjarnaskóla, og Jóhannes, sem kennir áfangann.

hlaðvörp úr kompunni

Fyrir utan Verkstæðið sjálft er hlaðvarpsstúdíóið okkar, Kompan, líka á fimmtu hæðinni. 

Kompan nýtur sívaxandi vinsælda og þar er töluverð framleiðsla. Hér má sjá yfirlit yfir nokkur hlaðvörp sem hafa orðið til þar. Öfugt við hljóðverið í Úlfarsárdal er Kompan sérstaklega hugsuð fyrir hlaðvarpsgerð. Þar eru sæti og fjórir hljóðnemar, hugsaðir fyrir spyrla og viðmælendur. Upptökugræjurnar eru einfaldar og notendavænar, svo gestir ættu að vera nokkuð sjálfstæðir, en sjálfsagt er að leita leiðsagnar hjá starfsfólki bókasafnsins. 

Sunnudagur 12. júní 2022
Flokkur