
Samvera hlýtur styrk
Í vikunni tóku Fanny Sanne Sissoko, verkefnastjóri inngildingar og fræðslu og Martyna Karolina Daniel, verkefnastjóri aðgengis og þátttöku á móti styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála fyrir Samveru, nýju verkefni sem fer af stað á Borgarbókasafninu Grófinni og Gerðubergi, vorið 2026.
Samvera byggir í grunninn á hugmyndafræði Spjöllum með hreim, sem hefur verið á dagskrá bókasafnsins um árabil og notið mikilla vinsælda.
Í Samveru verður auk þess lögð mikil áhersla á að mynda félagsleg tengsl á milli innfæddra og aðfluttra Íslendinga í gegnum sameiginleg áhugamál og samveru.
Markmiðið er að fólk finni sterkar fyrir því að það tilheyri samfélaginu og landinu í gegnum þrjár ólíkar tegundir viðburða sem ættu að henta öllum, bæði þeim sem hafa íslensku að móðurmáli og þeim sem hafa önnur móðurmál.
Þátttakendur munu lesa saman íslenskar fréttir með það fyrir augum að þau sem hingað hafa flutt annars staðar frá fái sterkari tengingu við samfélagið, læri nýjan orðaforða og styrkist í lýðræðislegri þátttöku.
Íslensk náttúra og veðurfar getur virkað framandi fyrir þau sem hingað flytja og einangrandi, ekki aðeins á þau sem vanari eru heitara loftslagi heldur einnig mörg sem þekkja ekkert annað en víla engu að síður fyrir sér að fara út þegar veður er vont. Það er hinsvegar alltaf skemmtilegra að takast á við áskoranir í góðum hópi fólks og í Samveru verður farið í létta göngutúra í nærumhverfi bókasafnsins með það í huga að auka sjálfsöryggi og finna hvað hreyfing og útivera gerir okkur gott, líkamlega og andlega.
Þá verða haldnar Ljóðavinnustofur sem hugsaðar eru fyrir þau sem langar að þróa enn sterkari tengsl við íslenskuna sem tungumál með mikla tengingu við sköpun.
Við þökkum Þróunarsjóði innflytjenda kærlega fyrir stuðninginn og hlökkum til að hefjast handa við skipulagningu Samveru sem verður kynnt nánar á miðlum bókasafnsins þegar nær dregur.