Með ljós í hendi geng ég um húsið

Þey
mig er að dreyma
ef þú vekur mig
hverfur draumurinn
en ég verð eftir ­–

Á þessum orðum hefst fyrsta ljóðabók Vilborgar Dagbjartsdóttur, Laufið í trjánum, frá árinu 1960. Ljóðmælandi biður lesanda að ganga hljóðlega um, að handfjatla skáldskapinn, drauminn, gjöfina, lífið sjálft af varfærni og mildi. Nú hefur Vilborg , skáld, þýðandi og kennari kvatt og haldið inn í ljós sem var henni hugleikið, inn í nýjan draum. Hún fæddist á Hjalla á Vestdalseyri þann 18. september 1930 og lést 16. september 2021, 91s árs að aldri. Vilborg starfaði við ritstörf og sem barnakennari en hún vann alla tíð að málefnum barna af mikilli hugsjón. Ásamt ljóðum sendi hún frá sér fjölda rita fyrir börn; sögur, námsefni og þýðingar. Hún var baráttukona fyrir kvenfrelsi og einn frumkvöðla að stofnun Rauðsokkahreyfingarinnar, átti sæti fyrir miðju hreyfingarinnar 1970.

Ég vil krjúpa 
Ég vil krjúpa 
lúta lengra niður 
alla leið í dýpstu myrkur 
fyrir lífsins rauðu sól.

Þetta er fyrsti hluti úr ljóðinu Kyndilmessa í samnefndri bók frá árinu 1971. Það á vel við að krjúpa og kveðja í skáldskap.

Blessuð sé dýrmæt minning Vilborgar Dagbjartsdóttur.

 

Á Borgarbóksafninu má finna fjölda skáldverka og þýðinga eftir Vilborgu, sem og tvær ævisögur um líf hennar.

Flokkur
Merki
UppfærtMánudagur, 20. september, 2021 20:20
Materials