Heimsókn frá bókasafninu í Herning
F.v. Unnar Geir, Emilie, Signe og Ingibjörg Ösp

Góð leið til að víkka sjóndeildarhringinn

Borgarbókasafnið er vinsæll áfangastaður starfsfólks bókasafna víða um heim, sem vilja víkka  sjóndeildarhringinn, kynna sér starfsemi ólíkra staða, fá nýjar hugmyndir og deila þekkingu. Mörg hafa fengið tækifæri til slíkra ferðalaga með styrk frá Erasmus+, m.a. hópar frá Póllandi, Finnlandi, Þýskalandi og Lettlandi. 

Þær Signe Smedegaard Frederiksen og Emilie Winther Jensen, sem báðar starfa að verkefnum fyrir börn og ungmenni á bókasafninu í Herning í Danmörku, komu í tveggja daga heimsókn til okkar í síðustu viku. Þær fengu kynningu á ýmsum verkefnum hjá Borgarbókasafninu, má þar nefna klúbbastarf fyrir börn og ungmenni, fræðslutilboð til skólahópa, Barnamenningarhátíð og verkefni sem snúa að samsköpun og þátttöku jaðarsettra hópa. Þær heimsóttu Grófina, Gerðuberg og enduðu upp í Úlfarsárdal þar sem þeim var boðið að skella sér í Dalslaug að lokinni kynningu á bókasafninu. Þær nýttu svo tækifærið til að upplifa eitt og annað sem Vetrarhátíð hafði upp á að bjóða þessa þrjá daga sem þær dvöldu í Reykjavík. 

Þær stöllur héldu einnig kynningu á sínum eigin verkefnum fyrir starfsmenn Borgarbókasafnsins sem var virkilega áhugaverð. Þær kynntu bókmenntahátíðina HERlit, Nörda-fræðibókadeildina (sem kallast Nørderiet upp á dönsku) og Nörda-hlaðvarp ungmenna, afar vinsælt danspartý, ratleik og fleira í Vetrarfríinu, bókmenntaviðburðinn „Bækur og borgara“ og margt fleira skemmtilegt. Heimsóknin var því í alla staði mjög ánægjuleg, jafnt fyrir gesti sem gestgjafa. 

Við þökkum þeim Signe og Emilie fyrir komuna. Þau sem vilja kynna sér starfsemi bókasafnsins í Herning geta kíkt á heimasíðuna herningbib.dk.