Flóðið hefst í aðfangadeildinni
Aðfangadeildin í jólabókaflóðinu virðist nokkuð óreiðukennd við fyrstu sýn, kassar og vagnar út um allt, bækur í öllum hillum og bókastaflar á öllum borðum. Bókum er forgangsraðað og flokkaðar eftir hæðum og bækur í stöflunum eru á mismunandi stigi í ferlinu. Því þrátt fyrir ástandið er starfsfólkið með skipulagið á hreinu.
En ætli sé munur á starfi aðfangadeildarinnar á þessum tíma en öðrum?
„Ó já, heldur betur munur,“ segir Svanhild Elisdóttir Jensen, bókavörður. „Það er meira en nóg að gera allan tímann.“ Andzelina M Kusowska Sigurðsson, samstarfskona hennar tekur undir: „Það er engin leið að komast yfir allt á þeim tíma sem við viljum.“ „En þá er forgangsraðað!“ bætir Sigurrós Sóley Jónsdóttir við og það er ljóst að konurnar kunna sitt fag.
Aðfangadeildin er fyrsti áfangastaður bókarinnar á bókasafninu. Hvað þarf að gera við bækurnar áður en þær fara í hillurnar?
„Þegar bækurnar koma í hús er tekið upp úr kössum og raðað á stórt borð. Þá er eitt eintak af bókinni nú þegar komið í hús og farið í skráningu. Síðan kemur þetta sama eintak niður til okkar með miðum inni í og við deilum út bókum í hin söfnin til plöstunar þar. Við setjum síðan miðana á bækurnar, styrkjum með styrktarbandi fremst og aftast í bókinni, setum doppur á kjalmiðann ef við á, plöstum með bókaplasti og setum bókatagg í. Síðan er bókin lesin inn í rétta safndeild í kerfinu, útlánstíminn valin og tímabundin staðsetning ef við á,“ segir Sigurrós.
„Sumar bækur eru ekki mjög „bókasafnsvænar“, þá helst þær sem eru til dæmis með loðna kápu og útskorin munstur, það fer mikill tími í þannig bækur,“ útskýrir Andzelina.
Er ekkert freistandi að lesa nýjustu bækurnar áður en þær fara í hillurnar til safngestanna?
„Jú og við flettum auðvitað bókunum og lesum aftan á kápuna. Við tökum líka myndir af bókunum sem okkur langar að lesa ... seinna!“ segir Svanhild og hlær.
Það er ljóst að það er mikið fjör á aðfangadeildinni, þrátt fyrir annir og kannski einmitt vegna þeirra. Þegar spurt er um hvað það besta við aðfangadeildina sé, er ekki nokkurt hik á svari:
„Það besta við starfið í aðfangadeildinni er starfsfólkið, starfsandinn og samvinnan. Við deilum yfirleitt með okkur verkum og hjálpumst að.“