Barnabókaverðlaun Reykjavíkur 2022
Í dag á síðasta degi vetrar voru Barnabókaverðlaun Reykjavíkur veitt við hátíðlega athöfn í Höfða.
Veitt voru verðlaun í þremur flokkum, fyrir bestu frumsömdu barnabók á íslensku, bestu þýðingu á barnabók yfir á íslensku og fyrir bestu myndlýsingu í íslenskri barnabók.
Verðlaunahafarnir í ár eru eftirfarandi rithöfundar, þýðandi og myndhöfundur:
Besta frumsamda íslenska barnabókin
Kristín Helga Gunnarsdóttir
Ótemjurnar
Umsögn dómnefndar: „Ótemjur eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur er spennandi saga þar sem fjallað er um aðkallandi samfélagsmál. Í forgrunni eru félagsleg réttindi barna og þörfin fyrir öryggi, ástúð og umhyggju. Þrátt fyrir alvarlegt umfjöllunarefni er frásögnin bæði hröð og leikandi og Kristín Helga tekst í bók sinni á við efnið af næmni og frásagnargleði.“
Besta þýðing á barnabók yfir á íslensku
Sverrir Norland
Eldhugar: Konurnar sem gerðu aðeins það sem þær vildu, eftir Pénélope Bagieu
Umsögn dómnefndar: „Á myndasöguformi eru sagðar þrjátíu sögur af konum sem settu, hver með sínum hætti, mark sitt á mannkynssöguna. Þýðing Sverris Norland er vandlega unnin. Tónninn er bæði hlýlegur og lestrarhvetjandi og fallegur, handskrifaður textinn eykur þau áhrif. Stíllinn er hnitmiðaður, málfarið fágað og gagnsætt og þýðingin fellur í alla staði vel að myndasöguforminu. Hér er á ferðinni sígilt og vandað verk sem mun gleðja unga lesendur um ókomin ár.“
Besta myndlýsing í íslenskri barnabók
Linda Ólafsdóttir
Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur
Umsögn dómnefndar: „Myndlýsingar Lindu hafa mjög klassískt yfirbragð, feta vel einstigið á milli raunsæis og stíliseringar og dempaðir litirnir gefa heildarverkinu fallegan tón. Það er ljóst að til grundvallar liggur mikil heimildavinna; til að endurspegla sem best anda hvers tímabils þarf að huga að öllum smáatriðum, hvort sem það er í byggingum eða klæðnaði fólks. Reykjavík barnanna er metnaðarfullt sagnfræðirit með grípandi og fræðandi myndum sem höfðar til barna á öllum aldri.“
Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eiga sér lengsta sögu barnabókaverðlauna á landinu og er helsta markmið þeirra að vekja athygli á því sem vel er gert í bókaútgáfu barnabókmennta og hvetja unga lesendur til bóklesturs.
Dómnefndina í ár skipuðu þau Tinna Ásgeirsdóttir, Ásmundur Kristberg Örnólfsson, Guðrún Lára Pétursdóttir, Karl Jóhann Jónsson og Valgerður Sigurðardóttir.
Við óskum verðlaunahöfum til hamingju með verðskuldaðan heiður fyrir framúrskarandi bókmenntaverk fyrir börn á öllum aldri.