Kristín Helga Gunnarsdóttir, Linda Ólafsdóttir, Sverrir Norland

Barnabókaverðlaun Reykjavíkur 2022

Í dag á síðasta degi vetrar voru Barnabókaverðlaun Reykjavíkur veitt við hátíðlega athöfn í Höfða.
Veitt voru verðlaun í þremur flokkum, fyrir bestu frumsömdu barnabók á íslensku, bestu þýðingu á barnabók yfir á íslensku og fyrir bestu myndlýsingu í íslenskri barnabók.

 

Verðlaunahafarnir í ár eru eftirfarandi rithöfundar, þýðandi og myndhöfundur:
 

Besta frumsamda íslenska barnabókin

Kristín Helga Gunnarsdóttir
Ótemjurnar


Umsögn dómnefndar: „Ótemj­ur eft­ir Krist­ínu Helgu Gunn­ars­dótt­ur er spenn­andi saga þar sem fjallað er um aðkallandi sam­fé­lags­mál. Í for­grunni eru fé­lags­leg rétt­indi barna og þörf­in fyr­ir ör­yggi, ástúð og um­hyggju. Þrátt fyr­ir al­var­legt um­fjöll­un­ar­efni er frá­sögn­in bæði hröð og leik­andi og Krist­ín Helga tekst í bók sinni á við efnið af næmni og frá­sagn­argleði.“

 

Besta þýðing á barnabók yfir á íslensku

Sverrir Norland
Eldhugar: Konurnar sem gerðu aðeins það sem þær vildu, eftir Pénélope Bagieu



Umsögn dómnefndar: „Á mynda­sögu­formi eru sagðar þrjá­tíu sög­ur af kon­um sem settu, hver með sín­um hætti, mark sitt á mann­kyns­sög­una. Þýðing Sverr­is Nor­land er vand­lega unn­in. Tónn­inn er bæði hlý­leg­ur og lestr­ar­hvetj­andi og fal­leg­ur, handskrifaður text­inn eyk­ur þau áhrif. Stíll­inn er hnit­miðaður, mál­farið fágað og gagn­sætt og þýðing­in fell­ur í alla staði vel að mynda­sögu­form­inu. Hér er á ferðinni sí­gilt og vandað verk sem mun gleðja unga les­end­ur um ókom­in ár.“

 

Besta myndlýsing í íslenskri barnabók

Linda Ólafsdóttir
Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur



Umsögn dómnefndar: „Mynd­lýs­ing­ar Lindu hafa mjög klass­ískt yf­ir­bragð, feta vel ein­stigið á milli raun­sæ­is og stíliser­ing­ar og dempaðir lit­irn­ir gefa heild­ar­verk­inu fal­leg­an tón. Það er ljóst að til grund­vall­ar ligg­ur mik­il heim­ilda­vinna; til að end­ur­spegla sem best anda hvers tíma­bils þarf að huga að öll­um smá­atriðum, hvort sem það er í bygg­ing­um eða klæðnaði fólks. Reykja­vík barn­anna er metnaðarfullt sagn­fræðirit með gríp­andi og fræðandi mynd­um sem höfðar til barna á öll­um aldri.“

 

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eiga sér lengsta sögu barnabókaverðlauna á landinu og er helsta markmið þeirra að vekja athygli á því sem vel er gert í bókaútgáfu barnabókmennta og hvetja unga lesendur til bóklesturs.
Dómnefndina í ár skipuðu þau Tinna Ásgeirs­dótt­ir, Ásmund­ur Krist­berg Örn­ólfs­son, Guðrún Lára Pét­urs­dótt­ir, Karl Jó­hann Jóns­son og Val­gerður Sig­urðardótt­ir.

 

Við óskum verðlaunahöfum til hamingju með verðskuldaðan heiður fyrir framúrskarandi bókmenntaverk fyrir börn á öllum aldri.

 

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 20. apríl, 2022 15:37