Annie Ernaux, rithöfundur

Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 2022

Nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum í ár 2022 er franski rithöfundurinn Annie Ernaux, fædd í Normandí í Frakklandi árið 1940.

Í ræðu og  umræðum um verk Ernaux var hugrekki í sjálfsævisögulegum skáldsögum nefnt þar sem skömm verður meðal mikilvægs efniviðs og ýmis félagsleg vandamál, sér í lagi þegar kemur að lífi og reynslu kvenna, hún fjallar meðal annars um meydóm, þungunarrof og áföll, rekur upp minningar og rætur og sýnir vel í verkum sínum  hvað manneskjan á erfitt með að sjá og þekkja sjálfan sig og útkoma skrifanna eru töfrandi listaverk.

Hvað eigum við að byrja að  lesa eftir Annie Ernaux ef við þekkjum ekki verk hennar var spurt eftir athöfnina þar sem verðlaunahafi var kynntur og svarið var: La Place, skáldverk frá árinu 1983, sjálfsævisöguleg skáldsaga og minningar um föður höfundarins. Bókin er nýútgefin í íslenskri þýðingu Rutar Ingólfsdóttur og nefnist Staðurinn. Um hana segir í kynningu:

„Í þesssari vönduðu bók fjallar hún á nærfarin hátt um samband sitt við föður sinn sem hún unni. Hún afhjúpar sársaukafulla fjarlægð sem myndaðist milli hennar og föður hennar sem sagði eitt sinn við hana: „Bækur og tónlist, það er gott fyrir þig. Ég þarfnast þess ekki til að lifa.““

Af öllum nóbelsverðlaunahöfum frá upphafi verðlaunanna hafa konur verið umtalsvert færri en karlhöfundar. Annie Ernaux er sautjándi kvenrithöfundur sem hlýtur Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. En alls hafa 102 karlrithöfundar hlotið heiðurinn.

Konur sem hafa hlotið Nóbelsverðlaun í bókmenntum:
1909 Selma Lagerlöf
1926 Grazia Deledda
1928 Sigrid Undset
1938 Pearl Buck
1945 Gabriela Mistral
1966 Nelly Sachs
1991 Nadine Gordimer
1993 Toni Morrison
1996 Wislawa Szymborska
2004 Elfriede Jelinek
2007 Doris Lessing
2009 Herta Müller
2013 Alice Munro
2015 Svetlana Alexievich
2018 Olga Tokarczuk
2020 Louise Glück
2022 Annie Ernaux

Tíðindin voru tilkynnt venju samkvæmt þann 6. október hjá sænsku akademíunni í beinni útsendingu.

Nóbelsverðlaun í bókmenntum  voru fyrst veitt árið 1901 til franska ljóðskáldsins Sully Prudhomme. Verðlaunin hafa því verið veitt í yfir 120 ár með nokkrum undantekningum,  nokkur ár hafa þau ekki verið veitt og verðlaunaféð geymt í sjóði til seinni tíma. Verðlaunin eru meðal virtustu verðlauna sem rithöfundur getur hlotið. Meðal verðlaunahafa eru þekktir og minna þekktir rithöfundar og skáld 20. aldarinnar, fólk á borð við Thomas Mann, Ernest Hemingway, John Steinbeck, Toni Morrison, Tomas Tranströmer, Gabriel Garcia Marquez, Harold Pinter, Hertha Müller, Doris Lessing, Bob Dylan, Louise Glück og fjöldi fleiri höfunda. Eini Íslendingurinn sem hefur hlotið verðlaunin er Halldór Laxness eins og kunnugt er, en hann hlaut þau árið 1955.

Alfred Nobel sem lést árið 1896 fyrirskipaði svo í erfðaskrá sinni að hin gífurlegu auðæfi sem hann skildi eftir sig ætti að nota til þessa setja á stofn fimm verðlaun.  Þessi verðlaun skyldu svo veitt þeim einstaklingum sem skarað hefðu fram úr á sínu sviði í eðlis-, efna-, læknisfræði, bókmenntum og friðarbaráttu.  Árið 1969 var hagfræðiverðlaunum sænska seðlabankans í minningu Alfreds Nobel bætt við og eru þau veitt með hinum upprunalegu Nóbelsverðlaunum.

10. desember eru bókmenntaverðlaunin svo afhent við hátíðlega athöfn í Stokkhólmi, ásamt hinum Nóbelsverðlaununum og hagfræðiverðlaununum.  Eina undantekningin eru friðarverðlaunin sem veitt eru í Osló sama dag. Verðlaunaféð í dag er um tíu milljónir sænskra króna.  Það er vel yfir 100 milljónir íslenskra króna. 

Sjá upplýsingar á opinberri vefsíðu Nóbelsverðlaunanna og einnig á vefsíðu Gljúfrasteins - Húsi skáldsins.
 

Sjá verk eftir Annie Ernaux sem finna má á Borgarbókasafninu og Rafbókasafninu.

 

 

Flokkur
UppfærtFimmtudagur, 6. október, 2022 22:18
Materials