Hólmfríður Ólöf, verkefnastjóri og Hulda frá Morgunútvarpinu

Fjölbreytni fyrir ólíka hópa á safninu

Morgunútvarpið kom í heimsókn á Borgarbókasafnið í Grófinni og tók Hólmfríði Ólöfu, verkefnastjóra, tali. Hólmfríður sagði frá fjölbreyttri starfsemi á Borgarbókasafninu. Yfir 300 viðburðir á ári sem dreifast á 6 og nú bráðlega 7 söfn. Fólk er sem betur fer ekki hætt að lesa, sagði Hólmfríður en það er samt hægt að sækja margt fleira en bækur og lestur á safnið, þó að það sé auðvitað dásamlegt að lána bækur og lesa. Það fellur aldrei úr gildi.

Stór spurning hefur verið: Hvernig getum við fengið unga fólkið á safnið? Og nú er unglingastarfið farið að blómstra á Borgarbókasafninu. Fyrsti Anime-klúbburinn var stofnaður í Gerðubergi og var mæting ótrúlega góð. Hér mæta krakkar sem finna sig kannski ekki í öðru félags- eða hópastarfi. Þau koma til að kynnast og spjalla saman um myndasögur, hugleiðingar um kyngervi, karaktera og allt milli himins og jarðar. Spila, teikna, lesa og vera. Nýr Anime-klúbbur hefur nú einnig verið stofnaður í Grófinni á fimmtudögum. Þá eru einnig starfræktir sívinsælir Harry Potter klúbbar, fyrir bæði yngri og eldri hópa. Hólmfríður kynnti einnig aðra starfsemi á Borgarbóksafninu, s.s. Verkstæðin á safninu en þangað er hægt að mæta og búa til eigin tónlist, sauma að vild, þrívídda prenta, taka upp hlaðvörp. Hólmfríður sagði frá uppbyggingu í nýju safni í Úlfarsárdal þar sem m.a. er verið að hanna fullkomna stúdíóaðstöðu. Einnig er verið að vinna að því að byggja risaskápa sem verða staðsettir á Borgarbóksafninu þar sem mögulegt verður að lána verkfæri og annað sem þú átt ekki heima hjá þér: sláttuvél, bora, kökuform og hvað eina. Það er jú óþarfi að eiga allt ef hægt er að lána, eins og Hólmfríður benti vel á.

Hulda hjá Morgunútvarpinu spurði hvort bókasafnið væri langt á undan sinni samtíð þegar kemur að hringrásar hagkerfinu? Góð spurning!

Þær slúttuðu þessu góða spjalli á Jazz í hádeginu sem er viðburður um þessar mundir í Grófinni, Gerðubergi og Spönginni. Og nú er víst einnig í bígerð sannkölluð skynjunarveisla með tónlist fyrir 8. bekkinga: hrollvekja, jazzspuni og framúrstefna. Spennandi tímar framundan!

Borgarbóksafnið hlakkar til að sjá sem flesta á safninu um alla borg: Gerðuberg, Spöng, Árbær, Kringlan, Sólheimar, Grófin og brátt Úlfarsárdalur.

Allar upplýsingar um viðburði, starfsemi, klúbba, útlán, bækur, tónlist og margt fleira má finna á heimasíðunni og á Borgarbókasafninu þínu.

Hér má hlýða á samtalið við Morgunútvarpið hjá RÚV.

 

Flokkur
UppfærtMánudagur, 11. apríl, 2022 15:19