Barnahornið Grófinni

Barnadeildin í Grófinni

Barnadeildin í Grófinni er á annarri hæð. Þar er gott rými fyrir börn til að lesa og leika sér. Afgirt horn er fyrir yngstu börnin með góðum sófa, harðspjaldabókum og ýmsu sem hentar ungum börnum. Þar verða öll að vera á sokkaleistunum. Á hæðinni eru einnig sófar sem foreldrar geta sest í og lesið fyrir börnin eða bara spjallað. Aðstaða til að skipta á bleium er á salerni og einnig er hægt að fá lánaðar kerrur.

Sögustundaherbergið er vinsælt rými, þar sem börnin geta mátað búninga eða kúrt innan um dýnur og púða og klifrað á litlum húsum. Fjölbreytt úrval af spilum eru í boði fyrir þau sem vilja setjast  niður og spila. 

Hér er auðvitað boðið upp á fjölbreyttan safnkost, m.a. bækur fyrir byrjendur, þykkar skáldsögur fyrir þau eldri, teiknimyndasögur, Syrpur, ljóðabækur og ævintýri. Einnig er gott úrval af DVD-diskum og tónlist. Safnið á ágætt úrval af bókum á erlendum tungumálum, mest á ensku og norðurlandatungumálunum en einnig eru til bækur á pólsku, víetnömsku og ítölsku svo einhver tungumál séu nefnd. Tvítyngd börn ættu því að geta fundið eitthvað að lesa. Starfsfólk er boðið og búið að finna lesefni, tónlist og DVD-diska við hæfi hvers og eins. 

Hér er yfirlit þeirra tungumála sem finna má í barnadeild bókasafnsins í Grófinni.

Fjölskyldum með börn, sem ekki eru komin á leikskólaaldur, er boðið að koma á Fjölskyldumorgna einu sinni í viku. Eldri börn eru líka hjartanlega velkomin, en stundin er sérstaklega sniðin að þörfum lítilla barna. Yfirleitt er boðið upp á samsöng og stundum með gítarundirleik. Reglulega er boðið upp á fræðslu fyrir nýbakaða og verðandi foreldra.

Velkomin í barnadeildina - munið að börn undir 18 ára fá frítt bókasafnsskírteini!

Flokkur
UppfærtFöstudagur, 13. október, 2023 14:55