Ísnálin 2020 | Best þýdda glæpasagan

Hilmar Hilmarsson hlaut Ísnálina, verðlaun fyrir best þýddu glæpasöguna, fyrir þýðingu sína á bókinni 1793 eftir Niklas Natt och Dag. JPV útgáfa gaf bókina út. 

Verðlaunin voru veitt fimmtudaginn 21. maí 2020 í Dósaverksmiðjunni (The Tin Can Factory) í Borgartúni. Að verðlaununum standa Hið íslenska glæpafélag, Bandalag þýðenda og túlka og Þýðingasetur Háskóla Íslands. Í dómnefnd sátu þau Jóhann R. Kristjánsson, f.h. Bandalags þýðenda og túlka, Katrín María Víðisdóttir, f.h. Hins íslenska glæpafélags og Ingibjörg Þórisdóttir f.h. Þýðingaseturs Háskóla Íslands.

Umsögn dómnefndar

Sagan gerist í Stokkhólmi undir lok 18. aldar. Aflimað lík finnst í forarpolli í Stokkhólmi. Vaktarinn Mickel Cardell og lögfræðingurinn Cecil Winge, rannsaka málið. Þar fléttast saman ólíkar sögur af misgóðu fólki, sögur sem eru hver annarri nöturlegri. Skítur, áfengisböl, svik og undirferli er alls ráðandi. Um er að ræða sögulega glæpasögu sem er ekki fyrir viðkvæma. Höfundi tekst að ná fram þeim ömurleika borgarinnar sem tíðarandi sögunnar kallar á. Reyndar er þessi saga með þeim hryllilegri. 1793 er þó gífurlega spennandi, frásögnin áhrifarík, lipurlega skrifuð og tekst Hilmari prýðilega að koma textanum frá sér á afar sannfærandi og náttúrulegan hátt.

Tilnefningar

Eftirtaldir þýðendur voru tilnefndir til verðlaunanna í ár:

Brynja Cortes Andrésdóttir, fyrir þýðingu sína Annabelle, eftir Lina Bengtsdotter. Bjartur útgáfa gefur út.
Hilmar Hilmarsson, fyrir þýðingu sína 1793, eftir Niklas Natt och Dag. JPV útgáfa gefur út.
Hrafnhildur Guðmundsdóttir, fyrir þýðingu sína Múttan, eftir Hannelore Cayre. Mál og menning gefur út.
Ísak Harðarson, fyrir þýðingu sína Feilspor, eftir Maria Adolfsson. JPV útgáfa gefur út.
Uggi Jónsson, fyrir þýðingu sína Gauksins gal, eftir Robert Galbraith. JPV útgáfa gefur út.

Flokkur
UppfærtÞriðjudagur, 9. júlí, 2024 10:43
Materials