Fjöruverðlaunin veitt á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 2023

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna 8. mars 2023 og er dagurinn til þess fundinn að fagna sigrum og vekja ahygli á baráttu kvenna um allan heim fyrir réttlæti og jafnrétti. Í ár er dagurinn helgaður sanngirni #EmbraceEquity - og velt upp muninum á þessum tveimur hugtökum - annars vegar jafnrétti og hins vegar sanngirni/réttlæti/jafnræði (equality vs. equity). Á opinberri síðu baráttudags kvenna eru þessi hugtök m.a. útskýrð á þennan veg til einföldunar:  að jafnrétti sé að gefa öllum skó að ganga í en jafnræði er að gefa öllum skó í réttri stærð.

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi,  voru veitt í dag og baráttudeginum fagnað með verðlaunaafhendingu við hátíðlega athöfn í Ráðhúsinu. Verðlaunin voru veitt í sautjánda sinn og í þremur flokkum. Alls lásu 9 konur í dómnefndum 109 bækur.

Verðlaunahafar Fjöruverðlauna í ár eru:

Barna- og unglingabókmenntir

Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur

Arndís fjallaði um þakklæti í ræðu sinni, að horfast í augu við eigin smæð og mátt tilviljana. Hún þakkaði mörgum og meðal annars bókasöfnum.

 

Fræðibækur og rit almenns eðlis

Farsótt. Hundrað ár í Þingholtsstræti 25 eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur

Hið femíníska sjónarhorn er mikilvægt í frásögninni í Farsótt, sagði Kristín Svava í ræðu sinni og því mjög ánægjulegt að taka við Fjöruverðlaununum. Að sagan sé saga af sigrum jafnt sem ósigrum. Hún vann umfangsmikla vinnu úr frumheimildum frá Borgarskjalasafni. Þá gagnrýndi Kristín Svava þau áform að leggja niður Borgarskjalasafn - og tileinkaði verðlaunin skjalavörðum landsins.
 

Fagurbókmenntir

Urta eftir Gerði Kristnýju

Hjartans þakkir sagði skáldið auðmjúk við Fjöruverðlaununum.

 

Borgarbókasafnið óskar höfundunum Gerði Kristnýju, Kristínu Svövu og Arndísi hjartanlega til hamingju með Fjöruverðlaunin og fagnar um leið alþjóðlegum baráttudegi kvenna!
#EmbraceEquity 

 

Flokkur
UppfærtFimmtudagur, 9. mars, 2023 11:51
Materials