Bókmenntahátíð í Reykjavík | Khaled Khalifa
Dauðinn er barningur eftir Khaled Khalifa kom út í íslenskri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur árið 2019. Sagan segir frá þremur systkinum sem þurfa að flytja lík föður síns til greftrunar í heimabæ hans Anabia í Aleppohéraði en líkflutningurinn verður annsi flókinn vegna stríðsástands í Sýrlandi. Sagan er sögð bæði hjartnæm, hryllileg og kolsvört gamansaga um hnignun samfélags í löngu stríði og hefur verkið verið tilnefnt til fjölda verðlauna.
Gunnar Hersveinn skrifar um skáldsöguna Dauðinn er barningur, sem áhrifamikla lestrarupplifun sem veiti harða innsýn í stríð og sálarlíf manneskjunnar. Fjallað er um einmanaleikann og tengslaleysi sem raunverulega sálarkvöl.
Khaled Khalifa er sýrlenskur rit- og handritshöfundur og ljóðskáld, fæddur í Aleppó 1964 en hefur búið í Damaskus síðustu 20 ár. Hann nam lögfræði og er einn þekktasti samtímahöfundur Sýrlands. Khalifa er gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík dagana 8. – 11. september.
Sjá bækur eftir Khaled Khalifa á Borgarbókasafninu.