Andrej Kúrkov

Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness 2022

Um nóttina átti hann bágt með svefn. Hann lá í dimmu svefnherberginu, hlustaði á rólegan andardrátt Nínu og skynjaði hlýjan líkama hennar við hlið sér. Hann hugsaði um þennan mann sem var að forvitnast um líf hans. Hver var hann? Hvaðan kom hann? Og af hverju var hann að þessu? Og þessi undarlega spurning sem hann lagði fyrir Sonju: hvort honum þætti vænt um hana?

     Við þessar hugsanir varð hann enn áhyggjufyllri og líkurnar á að honum yrði svefnsamt minnkuðu stöðugt.
     Það er einhver sem fylgist með þeim, hugsaði hann. Líklega er einhver að fylgjast með mér líka. Þó að ég fari sjaldan út fyrir hússins dyr. 

     Viktor smeygði sér gætilega undan ábreiðunni svo að hann vekti ekki Nínu, klæddi sig í sloppinn og fór út á svalir.
     Notalegur andvari barst niður af stjörnubjörtum himni. Honum fannst taugaspennt þögn sofandi borgarinnar þrúgandi. Það var slökkt á öllum gluggum hússins á móti. Niðri í húsagarðinum minnti næturkyrrðin á leikmynd sem leikararnir höfðu yfirgefið.

Andrej Kúrkov, Dauðinn og mörgæsin (bls. 210). Þýð. Áslaug Agnarsdóttir. Bjartur, 2005.

Úkraínski rithöfundurinn Andrej Kúrkov er handhafi Bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness í ár en verðlaunin eru nú veitt í þriðja sinn alþjóðlegum höfundi fyrir að stuðla að endurnýjun sagnalistar. Fyrri handhafar verðlaunanna eru þau Ian McEwan og Elif Shafak.

Andrej Kúrkov er fæddur 23. apríl árið 1961 og skrifar á rússnesku. Hann er afkastamikill höfundur  og hefur skrifað fjölda skáldverka fyrir börn og fullorðna, sem og verið ötull við gerð kvikmyndahandrita. Eitt hans þekktasta verk er skáldsagan Dauðinn og mörgæsin sem var þýdd um víða veröld og kom út í íslenskri þýðingu Áslaugar Agnarsdóttir árið 2005. Skáldsagan er tragikómísk saga sem gerist í Úkraínu eftir að Sovétríkin hafa liðið undir lok. Aðalpersónan Viktor er lánlaus og hæglátur rithöfundur sem býr í lítilli blokkaríbúð í Kíev ásamt þunglyndri mörgæs sem hann hefur tekið í fóstur. Einn daginn er hann ráðinn í lausamennsku við dagblað í borginni til að skrifa minningargreinar um mikilsháttar menn í samfélaginu sem blaðið vill hafa til taks þegar viðkomandi hrekkur upp af. Veröldin virðist brosa við Viktori um stund en heimilislíf hans verður hins vegar stöðugt flóknara. Sjá umfjöllun um Dauðann og mörgæsina á Bókmenntavefnum.  

Nú í septembermánuði kemur út bókin Diary of an Invasion, sem Kúrkov skrifar á ensku og eru það dagbókarskrif í aðdraganda innrásar Rússa í Úkraínu. Kúrkov er forseti alþjóðlegu rithöfundasamtakanna PEN í Úkraínu og hefur undanfarin misseri ferðast víða um heim og fjallað um innrásina.
 

Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness verða afhent í hátíðarsal Háskóla Íslands miðvikudaginn 7. september kl. 16:00 og mun Kúrkov við það tilefni flytja fyrirlestur Halldórs Laxness. Fyrirlesturinn fer fram á ensku. Um kvöldið kemur Kúrkov fram á upplestrarkvöldi í Iðnó ásamt rithöfundunum Guðrúnu Evu Mínervudóttur og Bergþóru Snæbjörnsdóttur, sem lesa úr nýjum bókum sínum sem væntanlegar eru fyrir jólin. Kynnir er Hallgrímur Helgason. Báðir viðburðirnir eru ókeypis og opnir öllum.

Að verðlaununum standa Forsætisráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Íslandsstofa, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Gljúfrasteinn og Forlagið. Í valnefnd verðlaunanna að þessu sinni voru Egill Helgason fjölmiðlamaður, Stella Soffía Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri Bókmenntahátíðar í Reykjavík og Elif Shafak.

Borgarbókasafnið óskar Andrej Kúrkov til hamingju með Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness og hvetur lesendur til að lána og lesa bækur höfundarins sem til eru á safninu.  Á Rafbókasafninu er einnig hægt að lána fjölda bóka eftir ýmsa höfunda á úkraínsku. Sjá hér bókmenntir á úkraínsku og einnig bækur fyrir börn á úkraínsku.

 

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 21. september, 2022 14:55
Materials