
Kvennaraddir
LÆSI Á STÖÐU OG BARÁTTU KVENNA | Samstarfsverkefni almenningsbókasafna um land allt í tilefni Kvennaárs 2025
Bókasafnasjóður veitti styrk til verkefnisins.
__________________________________________________________
Laugardaginn 24. október var mikið um að vera í Stykkishólmi enda menningarhátíðin Norðurljósin í fullum gangi. Það var líka bleikur október og haldið hafði verið Kvennaverkfall daginn áður til að fagna því að 50 ár væru liðin frá fyrsta Kvennafrídeginum. Inn í þessa miklu orku kom viðburðurinn Kvennaraddir sem haldinn var á Amtsbókasafninu í Stykkishólmi klukkan 16:30 þann dag.
Það var að færast ró yfir húsið eftir að fjöldi barna og fjölskyldna þeirra höfðu tekið þátt í listasmiðju. Það sveif því fjörmikill andi yfir vötnum þegar rúmlega 20 manns komu sér fyrir í bleika ljósinu frá afgreiðsluborðinu með freyðivínsglas í hönd og makkarónu í munni og hlýddu á Sunnu Guðnýju Högnadóttur bókmenntafræðing. Sunna Guðný sagði líflega frá BA ritgerð sinni í bókmenntafræði sem fjallar um póstfemínísk viðhorf í íslenskum skvísubókmenntum.
Sunna Guðný sagði frá tilurð svokallaðra skvísubókmennta (e. chick lit). Henni finnst nafnið á bókmenntagreininni ekki gott og frekar lítillækkandi, eins og þessi bókmenntagrein eigi að höfða til grunnhygginna kvenna. Skvísubækur fjalla um konur í nútímasamfélagi. Þær eru oft bleikar eða pastellitar til að það fari ekki fram hjá neinum hvaða stefnu þær tilheyra. Þær eru skrifaðar af konum, um konur og fyrir konur. Þær endurskapa oft togstreituna í lífi kvenna milli hefðbundinna væntinga um að þær séu eiginkonur, mæður og haldi fallegt heimili en eigi á sama tíma að vera sterkar, útivinnandi og sjálfstæðar konur. Söguefnið eru því konur sem hafa notið góðs af kvennabaráttu síðustu áratuga en losna þó ekki alveg undan gamalgrónum hugmyndum um kvenleika. Sunnu Guðnýju finnst að of margar bækur í dag séu flokkaðar sem skvísubækur. Margar þeirra bóka sem fá þann stimpil eru einfaldlega skáldskapur eftir konur.
Áheyrendur tóku fyrirlestrinum vel og skemmtilegar umræður spunnust eftir hann. Til dæmis um að bækur Guðrúnar frá Lundi hafi ekki þótt merkilegar á sínum tíma en séu nú mikils metnar og ennþá mikið lesnar. Sunna Guðný og áheyrendur voru sammála um að skilgreiningar á bókum ættu ekki að hafa áhrif á val lesenda á lesefni. Engar bækur séu góðar eða slæmar, lesendur eigi bara að lesa það sem þá lystir.
Pistilinn skrifaði Nanna Guðmundsdóttir