Information about the event
Bókajól | Vinátta og tengsl í Gerðubergi
Bókajól á öllum söfnunum!
Taktu frí frá áreiti og neyslu og njóttu aðventunnar í faðmi nýútkominna bóka! Borgarbókasafnið býður upp á aðventuupplestra á öllum söfnum sínum, með mismunandi þema. Þrír höfundar lesa upp á hverjum stað og boðið er upp á kakó eða súpu, eftir því hvort lesið er upp í hádeginu eða eftirmiðdaginn. Hér er heildardagskrá viðburðaraðarinnar.
Í Gerðubergi er þemað Vinátta og tengsl
Dagskrá:
Tómas Ævar Ólafsson - Breiðþotur
Brynja Hjálmsdóttir - Friðsemd
Jónas Reynir Gunnarsson - Múffa
Viðburðurinn verður haldinn í Fríbúðinni - og er ókeypis og öllum opinn!
Boðið verður upp á heitt kakó.
Um bækurnar:
Breiðþotur: Gagnaleki skekur heimsbyggðina. Þeir sem lýsa yfir ábyrgð krefjast róttækra aðgerða í loftlagsmálum. Áhrifa lekans gætir hjá krökkunum í Þorpinu. Verið er að undirbúa Þorpið undir næsta gagnaleka, þann sem mun afhjúpa öll leyndarmálin. Breiðþotur er grípandi saga um vináttu og söknuð, tæknihyggju og uppgang öfgaafla.
Friðsemd: Friðsemd hefur alla tíð verið með nefið ofan í erótískum spennusögum, sem Fatima, besta vinkona hennar, framleiðir á færibandi. Hennar eigið hversdagslíf er allt annað en spennandi. Þegar besta vinkonan deyr af grunsamlegum slysförum heldur Friðsemd í háskaför og áður en hún veit af er líf hennar orðið ískyggilega reyfarakennt. Friðsemd er bráðskemmtileg og óhefðbundin spennusaga um missi, von og vináttu í brothættum heimi.
Múffa: Markús er 33 ára, býr enn hjá föður sínum og stjúpmóður og heldur sig inni í herbergi á kafi í heimi tölvuleikja. En einn daginn fær hann pakka í pósti sem markar skil fyrir þau öll. Áleitin og grípandi skáldsaga frá snjöllum höfundi, saga um fjölskyldubönd og vináttu, rými og mörk, frelsi og hyldýpi – og það hvernig fólk kýs að lifa lífi sínu.
Ekki láta þig vanta!
Nánari upplýsingar:
Halla Þórlaug Óskarsdóttir
verkefnastjóri bókmennta