Til hamingju | Tilnefningar til Blóðdropans

Hið íslenska glæpafélag tilnefndi fimm bækur til Blóðdropans - glæpasögu ársins á Torginu í Borgarbókasafninu Grófinni, 9. desember kl. 17:00.

Eftirtaldar bækur voru tilnefndar í ár: 

Náhvít jörð | Lilja Sigurðardóttir

Náhvít jörð er hrollvekjandi saga um glæpamenn sem svífast einskis og fórnarlömb mansals – þræla nútímans. 

Á hvítum vetrarmorgni finnst yfirgefinn flutningagámur í Rauðhólum við Reykjavík. Þegar hann er opnaður blasir hryllingurinn við: fimm lífvana konur sem augljóslega hafa verið fluttar í þessum gámi yfir hafið. Hvernig getur svona lagað gerst og hverjir standa að baki þessari óhæfu?

Lilja Sigurðardóttir er einn vinsælasti spennusagnahöfundur landsins og bækur hennar hafa komið út víða erlendis. Hún hefur verið tilnefnd til breska Gullrýtingsins og í tvígang hlotið íslenska Blóðdropann og tilnefningu til norræna Glerlykilsins.

Horfnar | Stefán Máni

Það er sumarbjart og sólin skín við Kirkjubæjarklaustur. Tvær þýskar vinkonur á bakpokaferðalagi heillast af stórbrotinni náttúrunni. Undir friðsælu yfirborðinu við Klaustur leynast þó myrk leyndarmál sem stúlkurnar tvær vilja ekki vita af. 

Stefán Máni hefur tíu sinnum verið tilnefndur til Blóðdropa Hins íslenska glæpafélags og hlotið verðlaunin þrisvar. Fyrst árið 2007 fyrir bókina Skipið, svo árið 2012 fyrir bókina Húsið og síðast fyrir bókina Grimmd, sem kom út árið 2013. Stefán Máni hefur gefið út tuttugu og fimm skáldsögur frá árinu 1996. 

Út að drepa túrista | Þórarinn Leifsson

Leiðsögumaðurinn Kalman er þreyttur. Hring eftir hring og ár eftir ár hefur hann mátt sinna kenjum fólks frá öllum heimshornum, svara furðulegum spurningum og bregðast við óvæntum uppákomum. En þessi síðasta Suðurstrandarferð ætlar allt að trompa. Ekki nóg með að einn farþeginn finnist myrtur í upphafi ferðar og morðinginn leynist um borð í rútunni heldur sveimar hættuleg veira um, veðurspáin er viðbjóður og sá sem lögreglan sendir til að leysa málið er í hæsta máta vafasamur.

Þórarinn Leifsson er með meirapróf í að eiga við ferðamenn. Áður hefur hann skrifað bækur bæði fyrir börn og fullorðna sem hafa verið þýddar á fjölda tungumála, hlotið verðlaun og fengið frábæra dóma. Þetta er fyrsta glæpasaga hans.

Lok lok og læs | Yrsa Sigurðardóttir

Á köldu vetrarsíðdegi fer nágranni að huga að fjölskyldu í Hvalfjarðarsveit sem ekki hefur svarað skilaboðum. Fólkið veit ekki aura sinna tal og hefur komið sér fyrir í afdal utan alfaraleiðar. Nágranninn sér ummerki um mannaferðir en enginn svarar þegar hann drepur á dyr. Eftir að hafa litið inn í húsið hrökklast hann aftur út og kallar til lögreglu. Hvað gerðist hjá þessum nýju ábúendum?

Jafnframt því að fylgjast með rannsókn málsins fær lesandinn að skyggnast inn í líf fjölskyldunnar í aðdraganda þessara voveiflegu atburða þar sem ekki er allt sem sýnist.

Yrsu Sigurðardóttur þarf ekki að kynna fyrir íslenskum glæpasagnalesendum. Hún hefur sent frá sér sautján spennusögur, eina á ári frá því sú fyrsta kom út árið 2005, Þriðja táknið

Yrsa Sigurðardóttir hlaut Blóðdropann árið 2020, fyrir bók sína Bráðin

Farangur | Ragnheiður Gestsdóttir

Ylfa stendur á brautarpallinum, loksins búin að gera upp hug sinn. Hún verður að komast burt. Undir eins, áður en hann vaknar. Lestin, sem er væntanleg á hverri stundu, mun bera hana fyrsta áfangann á leiðinni heim. Heim í öryggið á Íslandi. Ekkert má koma í veg fyrir að hún komist af stað. Ekki einu sinni þessi óvænti farangur sem hún fær í fangið.

Ragnheiður Gestsdóttir gaf út spennubókina Úr myrkrinu sem kom út árið 2019 og fékk góðar viðtökur lesenda. 

Fimmtudagur 9. desember 2021
Flokkur
Materials