Information about the event
Bókajól | Ævisögur í Árbænum
Bókajól á öllum söfnunum!
Taktu frí frá áreiti og neyslu og njóttu aðventunnar í faðmi nýútkominna bóka! Borgarbókasafnið býður upp á aðventuupplestra á öllum söfnum sínum, með mismunandi þema. Þrír höfundar lesa upp á hverjum stað og boðið er upp á kakó eða súpu, eftir því hvort lesið er upp í hádeginu eða eftirmiðdaginn. Hér er heildardagskrá viðburðaraðarinnar.
Í Árbæ er þemað Ævisögur
Dagskrá:
Kristín Svava Tómasdóttir - Duna
Bragi Ólafsson - Innanríkið - Alexíus
Auður Styrkársdóttir - Kona á buxum
Viðburðurinn er ókeypis og öllum opinn!
Boðið verður upp á heitt kakó.
Um bækurnar:
Duna: Guðný Halldórsdóttir, Duna, er afkastamesta kvikmyndagerðarkona þjóðarinnar. Eftir hana liggja ástsælar gamanmyndir eins og Stella í orlofi en líka dramatískar myndir líkt og Veðramót auk fjölda heimildarmynda og sjónvarpsþátta. Hér hefur Duna sjálf orðið og fer yfir viðburðaríkan feril í sprenghlægilegu en heiðarlegu uppgjöri.
Innanríkið - Alexíus: Faðir höfundar vaknar eina nótt við að ókunnugur maður stendur í svefnherbergisdyrunum, og aldarfjórðungi síðar rifjar sonurinn upp atvikið. Í framhaldi fer hann á stefnulaust flakk um fortíð og nútíð, frá Reykjavík upp á Mýrar og út í heim. Hér sýnir Bragi Ólafsson á sér nýja hlið; hann beinir athyglinni að því sem ekki er endilega skáldskapur.
Kona á buxum: Heimildaskáldsaga um Þuríði formann á Stokkseyri sem varð strax á barnsaldri dugandi sjómaður og gekk uppkomin á buxum. Hún fór ótroðnar slóðir og varð fræg fyrir að koma óvænt upp um illræmda glæpamenn í Flóanum. Höfundur sem á sér langa sögu í heimi fræða hefur kafað djúpt í heimildir um Þuríði sem um tíma gekk undir nafninu Þormóður.
Ekki láta þig vanta!
Nánari upplýsingar:
Halla Þórlaug Óskarsdóttir
verkefnastjóri bókmennta