Í þessari bók er rakin saga vitaþjónustu á Íslandi, en hún hófst þann 1. desember 1878 þegar tendrað var ljós á fyrsta vita landsins á Valahnúk á Reykjanesi. Vitalýsing var forsenda þess að unnt væri að halda uppi siglingum kaupskipa til Íslands að vetrarlagi og um langt skeið voru vitarnir meðal helstu og mikilvægustu leiðsögutækja sjófarenda. Vitaljósin tengdu Ísland traustum böndum við umheiminn og áttu auk þess ríkan þátt í að efla innlendar samgöngur og atvinnulíf. Vitar risu hvarvetna á strönd landsins og hvert og eitt byggðarlag á sína vita en þá er líka að finna á eyðiströndum og í útskerjum. Bókin á því ótvírætt erindi við allt áhugafólk um íslenska atvinnu- og menningarsögu, jafnt í dreifbýli sem þéttbýli. Byggingarsaga íslenskra vita spannar ríflega eina öld og endurspeglar það sem hæst hefur borið í byggingarlist hvers tímaskeiðs fyrir sig. Íslenskir vitar voru reistir síðar en vitar flestra annarra þjóða og bera margir þeirra nútímaleg stíleinkenni sem gerir þá sérstaka í alþjóðlegu samhengi. Byggingarlist vitanna er gerð ítarleg skil í bókinni sem og þeim miklu breytingum sem orðið hafa á ljóstækjum og annarri vitatækni. Hátt á fimmta hundrað ljósmynda og teikninga, gamalla og nýrra, birtast í bókinni til prýði og skilningsauka á tækni og stíleinkennum íslenskra vita. Enskir myndatextar og ítarlegur útdráttur á ensku er í bókinni. (Heimild: Bókatíðindi)