Information about the event
Rými fyrir höfunda | Fimm ljóðskáld lesa upp úr verkum sínum
Skáldin Garibaldi, Guðmundur Magnússon, Gunnhildur Þórðardóttir, Margrét Lóa Jónsdóttir og Ragnheiður Lárusdóttir lesa upp úr nýjum og nýlegum bókum sínum.
Titlar bókanna:
Garibaldi: sjötíu bragandi dúfur
Guðmundur Magnússon: Talandi steinar
Gunnhildur Þórðardóttir: Dóttir drápunnar (og fleiri bækur)
Margrét Lóa Jónsdóttir: Pólstjarnan fylgir okkur heim
Ragnheiður Lárusdóttir: Veður í æðum. Flétta handa dóttur, sonum og formæðrum
Garibaldi er fæddur 1954 og hefur ort ljóð í áratugi. sjötíu bragandi dúfur er tíunda ljóðabók hans. Í bókinni eru 38 ljóð sem lýsa sambandi hans við yngsta bróður hans, þeim erfiðu aðstæðum sem þeir alast upp við, kærleikanum milli þeirra og áfallinu þegar bróðirinn deyr aðeins sautján ára með allt lífið framundan. Síðari hluti ljóðaflokksins lýsir sorg og upprisu ljóðmælanda þegar hann snýr harmi í sigur og finnur ást til lífsins. Í bókinni eru m.a. ljóðin „hvolf“ og „segðu satt“ sem hlutu 1. og 2. verðlaun í ljóðasamkeppni Ljósberans haustið 2023.
Garibaldi fékk (sem Garðar Baldvinsson) sérstaka viðurkenningu Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar árið 2000 fyrir ljóðabókina sjónbaugar sem hlaut góða dóma.
Guðmundur Magnússon er fæddur 1981 og uppalinn í Garðinum. Hann er menntaður kvikmyndagerðarmaður og hefur unnið að gerð heimildamynda. Guðmundur er bókamaður, sögumaður og áhugamaður um sagnfræði og gefur út tímaritið Skiphól tvisvar á ári þar sem birtar eru gamlar myndir og viðtöl við eldra fólk á Suðurnesjum. Hann fékk nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrir ljóðabókina Talandi steina 2022 en Bjartur gaf hana út. Guðmundur er einn af frumkvöðlum Bryggjuskálda og ljóðasamkeppni Ljósberans sem fram fór í sjötta skipti síðastliðið haust.
Gunnhildur Þórðardóttir er myndlistarmaður, skáld og kennari. Hún lauk tvíhliða BA námi í listasögu og fagurlistum frá Listaháskólanum í Cambridge árið 2003 og MA í liststjórnun frá sama háskóla árið 2006 og lauk viðbótardiploma í listkennslu við LHÍ á haustönn 2019. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga m.a. í Listasafni Reykjanesbæjar, Kirsuberjatrénu, í Suðsuðvestur, Flóru á Akureyri, í SÍM salnum, Slunkaríki, sal Íslenskrar grafíkur auk þess að taka þátt í samsýningum í Listasafni Íslands, Hafnarborg, Listasafni Reykjanesbæjar, Norræna húsinu, 002 gallerí og Tate Britain. Hún er stofnandi listahátíðarinnar Skáldasuðs og Myndlistarskóla Reykjaness. Hún fékk ljóðaverðlaunin Ljósberann árið 2019 og hefur gefið út sex ljóðabækur og tekið þátt í fjölda upplestra.
Margrét Lóa Jónsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1967. Nýverið hlaut hún Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir 12. ljóðabók sína, Pólstjarnan fylgir okkur heim. Fyrsta ljóðabók Margrétar, Glerúlfar, kom út haustið 1985. Þá hefur hún einnig gefið út skáldsögu og ljóðasafn sitt ásamt tónlistarmanninum Gímaldin. Margrét Lóa hefur kennt skapandi skrif og íslensku og fengist við ljóðaþýðingar, aðallega úr spænsku. Einnig hefur hún starfrækt listagalleríið Marló og bókaútgáfu með sama nafni. Hún hlaut viðurkenningu frá Bókasafnssjóði árið 2002 og frá Fjölíssjóði Rithöfundasambands Íslands 2005.
Ragnheiður Lárusdóttir er móðir þriggja fullorðinna barna og hefur skrifað ljóð frá því að hún lærði að skrifa. Árið 2020 vann hún Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir handrit að bókinni 1900 og eitthvað, Glerflísakliður kom út árið 2021. Árið 2022 kom bókin KONA/SPENDÝR og í ár bókin Veður í æðum sem er safnbók og inniheldur allar þær fjórar bækur sem hún hefur skrifað til þessa
Ragnheiður er íslenskufræðingur, söngkennari og með masterspróf í listkennslufræði, er menntaskólakennari að atvinnu og hefur kennt íslensku, tjáningu og menningarlæsi í 25 ár við Menntaskólann í Kópavogi.
Í þessari nýju og áhrifamiklu ljóðabók, Veður í æðum. Flétta handa dóttur, sonum og formæðrum, yrkir Ragnheiður Lárusdóttir um þá sáru reynslu að horfa á dóttur sína lenda í fjötrum fíknar – en líka um þá töfra tilverunnar sem umlykja okkur, þrátt fyrir allt. Ljóðmál Ragnheiðar er beinskeytt og sterkt, eins og lesendur þekkja úr fyrri bókum þessa verðlaunaskálds – sem allar fylgja með í þessari bók.
Hér má kynna sér Rými fyrir höfunda á Borgarbókasafninu.
Nánari upplýsingar veitir:
Garðar Baldvinsson, rithöfundur
gardar@garibaldi.is