Jóladagatal | Stikkprufur úr flóðinu 2025

Líkt og síðustu ár laumast rithöfundar og þýðendur til byggða með glóðvolgar bækur. Fyrst komu þau við á Borgarbókasafninu í Grófinni og sitja þar nú og bíða eftir að við opnum gluggana á dagatalinu.

Fylgist vel með hér eða á Facebook, Instagram, Youtube og TikTok í desember, alla daga fram að jólum!

18. desember

Hurðaskellir vakti borgarbúa með látum í morgun! Í glugga dagsins er Snæfríð Þorsteins, þýðandi og bókahönnuður sem segir okkur frá Persepólis II, seinni hluta uppvaxtarsögu hinnar írönsku Marjane Satrapi.

17. desember

Askasleikir braust til byggða í nótt og í dag er það Kjartan Atli Ísleifsson sem talar frá Akureyri og leyfir okkur að skyggnast í nýja bók sína, Skrifarar sem skreyttu handrit sín, Alþýðulist og skreytingar í handritum síðari alda.


16. desember

Í dag heilsar okkur í dagatalsglugganum Brynhildur Þórarinsdóttir sem nýlega hlaut tilnefningu til Fjöruverðlaunanna fyrir glænýja unglingabók sína, Silfurgengið. Brynhildur segir okkur nú frá söguhetjunni hinni 15 ára Sirrýlei og Silfurgenginu.


15. desember

Það er mánudagur og því viðeigandi að hér sé mættur Stefán Máni með Hina helgu kvöl, nýjustu bókina í bókaflokknum um rannsóknarlögreglumanninn Hörð Grímsson.


14. desember

þriðji sunnudagur í aðventu. Nú hittum við fyrir Ester Hilmarsdóttur sem er sest á kirkjubekk í sveitinni og segir okkur frá skáldsögunni, Sjáanda.


13. desember

Í dag mun Helga María Bragadóttir segja frá sögulegri skáldsögu sinni, Hring fiskimannsins, sem er hennar fyrsta skáldsaga.


12. desember

Upp er runninn föstudagurinn 12. desember og vindurinn gnauðar. Emil Hjörvar Petersen er í dagatalsglugganum og leyfir okkur að gægjast í glænýja skáldsögu sem nefnist Eilífðarvetur.


11. desember

Í kvöld setja öll skóinn út í glugga því Stekkjastaur er á leið til byggða! Þangað til opnum við einn dagatalsgluggann til og þar les Natasha S. fyrir okkur úr nýrri ljóðabók, Mara kemur í heimsókn.

10. desember

14 dagar til jóla! Tónlistarmaðurinn, leikarinn og listræni aðgerðarsinninn Hörður Torfason les úr nýrri bók sinni sem hann nefnir, Þegar múrar falla.

 

9. desember

Þriðjudagurinn níundi desember og Soffía Bjarnadóttir les úr skáldsögu sinni Áður en ég brjálast -Játningar á miðjunni. (Þessari skáldsögu fylgir líka samnefndur lagalisti sem finna má á spotify).

 

8. desember

Gleðilegan mánudag! Dagatalsgluggi númer átta opnast og út stígur Ægir Þór Jähnke með skáldsöguna Grár köttur, vetrarkvöld.

 

7. desember

Annar sunnudagur í aðventu og við fáum að heyra frá Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur um nýja bók hennar Piparmeyjar – Fröken Thora og saga einhleypra kvenna á Íslandi. Sigríður hlaut í vikunni tilnefningu til Fjöruverðlaunanna fyrir bókina.


6. desember

Það er kominn laugardagur, glugginn opnast og Kári Valtýsson les fyrir okkur úr brakandi nýjum krimma sem nefnist Hyldýpi.

 

5. desember

Í glugga dagsins er Maó Alheimsdóttir með ljóðabók sína, Hvalbak, sem hlaut tilnefningu til Fjöruverðlaunanna í gær.

 

4. desember

Dagatalsglugginn opnast og þar blasir við sagnfræðingurinn Davíð Ólafsson með bók sína Mynd & hand: Skólasaga 1939 - 1999. Davíð hlaut í gær tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir bókina í flokki fræðibóka og rita almenns efnis. Meðhöfundur Davíðs að bókinni var Arndís S. Árnadóttir.

.
 

3. desember

Dagatalsglugginn í dag ber með sér myndskeyti alla leið frá Lundúnaborg. Það er rithöfundurinn Sif Sigmarsdóttir sem býður okkur til stofu og segir frá nýrri skáldsögu sinni,  Allt sem við hefðum getað orðið.

2. desember

Það er bjart yfir borginni í dag, vindurinn blæs og ljósunum fer fjölgandi í gluggum húsanna. Í dag er það Joachim B. Schmidt sem kíkir út um dagatalsglugga Borgarbókasafnsins með skáldsögu sína Ósmann. Þýðandi: Bjarni Jónsson.

1. desember

Fyrsti desember og fullveldi fagnað. Tími til að anda ofan í maga, búa sig undir jól og næstu daga, reyna að muna eftir að njóta – ekki síst bókmenntanna. Við opnum fyrsta gluggann í jóladagatalinu okkar og fyrsti höfundurinn sem gægist þar út er Una Margrét Jónsdóttir, með bók sína Silfuröld revíunnar.

Stikkprufur úr fyrri flóðum:

2024
2023
2022
2021
2020

Materials