
Information about the event
Sýning | Ljósbrotið fræ
Ljósbrotið fræ - Hildur Erna Villiblóm sýnir í Spönginni.
Ég er búin að koma mér vel fyrir
Innan hlýju líkamans
meðal eindum móður minnar
Rætur mínar umvefja fortíðina
Greinar mínar teygjast til vega
Ég dreg inn djúpan andann
og leyfi ljósbrotunum að leka út
Þau flæða út fyrir
og lýsa upp hennar leiðir
Hún velur sína kvista
sem umbreytast á sekúndu hverri
hver og ein brotin og heil
hver og ein falleg og erfið
Ég verð hér
á meðan líf hennar blómstrar
hennar ljósbrotna fræ
Hildur Erna sérhæfir sig í ljósmyndun og myndvinnslu með íblandaðri málningu, teikningu og skrifum. Í gegnum linsuna kannar hún oftast kvenlíkamann og fangar þemu eins og sjálfsmynd, umbreytingu og hráan kjarna hins jarðneska holds.
"Sýningin fjallar um innra landslag kvenlíkamans, þar sem líkamsminni og meðvitund fléttast saman í sífelldri umbreytingu. Verkin rannsaka líkamann sem lifandi vistkerfi tilfinninga og orku, sem speglar þá umbreytingu sem á sér stað þegar meðvitundin teygir sig úr fyrir mörk líkama - og aftur inn í hann."
Einstök nálgun hennar ögrar hefðbundnum hugmyndum um fegurð og býður þannig áhorfendum að finna hana í hinu óvænta og óvenjulega. Í gegnum árin hefur Hildur Erna unnið við fjölbreytt verkefni, þar má til dæmis nefna hönnun bókarkápa og veggspjalda og nú seinast verk fyrir plötuumslag tónlistarmannsins Kaktus sem kom til með að vinna Íslensku tónlistarverðlaunin og FÍT verðlaun í flokki tónlistargrafíkar.
Sýningaropnun verður föstudaginn 5. desember kl 16:30.
Nánari upplýsingar veitir:
Halldór Óli Gunnarsson
Borgarbókasafninu Spönginni
halldor.oli.gunnarsson@reykjavik.is | 411 6241
Hildur Erna Villiblóm Sigurjónsdóttir
hildurernaa@gmail.com