Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar afhent

Margrét Tryggvadóttir, Rán Flygenring og Þórarinn Eldjárn hljóta Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2020 fyrir bækurnar Kjarval: málarinn sem fór sínar eigin leiðirVigdís: bókin um fyrsta konuforsetann og Hver vill hugga krílið? eftir Tove Jansson. Við óskum verðlaunahöfunum innilega til hamingju! 

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar voru veitt við nokkuð óvenjulegar aðstæður í ár vegna Covid-19 og heldur síðar en venjan er. Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, afhenti höfundunum verðlaunin í Höfða en í stað hefðbundinnar móttöku var brugðið á það ráð að kvikmynda athöfnina til að fleiri mættu njóta og fagna með höfundunum og má sjá stikluna hér á vef Bókmenntaborgarinnar og einnig á vef Reykjavíkurborgar.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eru veitt í þremur flokkum bóka fyrir börn og ungmenni, flokki frumsaminna bóka, flokki myndlýsinga og flokki þýðinga. Þetta eru elstu barnabókaverðlaun á Íslandi en þau voru fyrst veitt sem Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur árið 1973. Árið 2016 voru Dimmalimm verðlaunin og Barnabókaverðlaun Reykjavíkur sameinuð og urðu flokkarnir þá þessir þrír. Verðlaunaféð er 350.000 kr. í hverjum flokki.

Í ár fékk dómnefndin 108 bækur til skoðunar, 32 frumsamdar á íslensku, 54 þýddar og 20 myndríkar. Þetta er um 20% aukning milli ára og var hún mest í flokki þýddra bóka. Fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki og nú er ljóst hvaða þrjár bækur hljóta verðlaunin í ár. Dómnefnd verðlaunanna skipuðu þau Tinna Ásgeirsdóttir, sem var formaður, Ásmundur Kristberg Örnólfsson, Helga Birgisdóttir, Karl Jóhann Jónsson og Valgerður Sigurðardóttir.

 

Category
UpdatedTuesday July 9th 2024, 10:43
Materials