Skapa tónlist á skólatíma

Tjarnarskóli býður nemendum sínum, sem eru á unglingastigi, upp á mismunandi valáfanga. Einn af þessum áföngum er tónsmíða- og tölvuáfangi sem kenndur er í tónlistar- og myndvinnsluveri Borgarbókasafnsins í Grófinni. Margrét Theódórsdóttir, skólastjóri Tjarnarskóla, hefur yfirumsjón með valáföngunum. Við heyrðum í Margréti til að forvitnast um fyrirkomulagið. 


Lífsleikni að læra á almenningssamgöngur

„Tjarnarskóli er lítill og hefur takmarkað kennslurými til umráða. Til þess að halda fjölbreytni í valgreinum er þess vegna gjarnan leitað út fyrir veggi skólans. Sem dæmi bjóðum við upp á leirlist og myndlist inni í Skipholti og 10. bekkingarnir okkar taka þátt í svo nefndu grunnskólavali í Tækniskóla Íslands. Þegar við fréttum af aðstöðunni í Borgarbókasafninu varð þessi  valkostur til, að bjóða upp á tónlistarval í Borgarbókasafninu,“ útskýrir Margrét. 

„Krakkarnir hér eru vanir að koma sér sjálfir á milli staða. Það er ákveðin lífsleikni að læra á strætóleiðir og koma sér til og frá en Borgarbókasafnið er í göngufæri frá skólanum. Annars eru margir sem njóta akstursþjónustu foreldra sinna en þetta eru unglingar svo þeir ráða alveg við þetta,“ segir Margrét.
 

Verkstæðið verður skólastofa

„Þegar við fréttum af þessari aðstöðu í Grófinni, bæði fyrir að vinna með tónlistarforrit og myndbandagerð, höfðum við samband við safnið og spurðum hvort það væri möguleiki að setja upp valnámskeið fyrir skólann þar. Það var auðsótt. Við vorum ekki með leiðbeinanda á okkar snærum, svo starfsfólkið á bókasafninu benti okkur á Jóhannes [Ágúst Sigurjónsson] sem hefur séð um þetta síðan.“
 

Borgarbókasafnið er líka skólabókasafnið

Í skólanum er ekki bókasafn svo Borgarbókasafnið Grófinni hefur ávallt nýst nemendunum vel. „Borgarbókasafnið hefur eiginlega verið okkar skólabókasafn. Við höfum fengið frábæra þjónustu þar. Allir bekkir fara að jafnaði einu sinni í viku og taka bækur og skila og krakkarnir fá líka oft að sitja og fletta og skoða.“

Krakkar í Kompunni

Krakkarnir geta einnig nýtt hlaðvarpsstúdíóið Kompuna, ef þeim líst svo á. Hér má sjá hóp úr Tjarnarskóla í Kompunni, hugsanlega að taka upp hlaðvarp – nú eða kennsluefni!

Aðrir skólar ættu að taka Tjarnarskóla til fyrirmyndar

Viðtal við Jóhannes Ágúst Sigurjónsson, sem kennir valáfangann

Jóhannes Ágúst Sigurjónsson hefur undanfarin ár haldið námskeið á eigin vegum og hjá Skýinu - skapandi skóla þar sem hann kennir börnum, unglingum og fullorðnum á ýmis forrit, lagasmíðar og upptökutækni. Hann hefur einnig haldið skemmtilegar smiðjur fyrir börn og unglinga hjá Borgarbókasafninu. Hann sér um kennsluna í valáföngum Tjarnarskóla sem kenndir eru í Grófinni. Við höfðum samband við Jóhannes til að heyra hvernig kennslan fer fram.

Hvað gerið þið í tímunum?
Við lærum aðallega á Logic Pro. Þar gerum við takta, tökum upp allskonar rugl og leikum okkur að sampla og remixa lög, hljóð og tónlist sem þeim þykir skemmtileg. 

Hvernig er fyrirkomulagið?
Það er mjög misjafnt. Um daginn vorum við til dæmis með keppni um hver gæti gert versta mögulega lagið eða taktinn. Þá sátu allir krakkarnir mjög einbeittir í tölvunum að búa til óhljóð sem við spiluðum svo í lok tímans. Ég gat því miður ekki valið sigurvegara í þeirri keppni því það var allt alveg skelfilegt! Annars er áhuginn misjafn hjá krökkunum en oftast er hægt að finna einhvern tengipunkt við áhugasvið hvers og eins og mynda verkefni út frá því, sama hvort það er þá að taka upp hlaðvarp, endurhljóðblanda fræg hljóð af TikTok eða bara hlusta á og pæla í tónlist.

Hvað kemur út úr tímunum?
Afurðirnar eru misjafnar eftir nemendum og hópum en oft hafa krakkarnir búið til heilu lögin sjálf sem er alveg frábært. Stemmningin í tímunum er mjög hressileg og ég hef stundum áhyggjur af því að þetta sé haldið á bókasafni vegna hávaðans sem getur myndast.

Nýta krakkarnir aðstöðuna í tónlistar- og myndvinnsluverinu á öðrum tímum?
Ég hef ekki orðið var við það að krakkarnir séu að koma mikið eftir skóla og nota aðstöðuna en það er oft eins og þau átti sig ekki á því að það sé í boði.

Annars er þetta alltaf alveg virkilega skemmtilegt og að mínu mati mjög mikilvægt fag sem er ekki alltaf lögð næg áhersla á í íslenska grunnskólakerfinu. Félagsmiðstöðvarnar og bókasöfnin hafa tekið þetta svolítið að sér sem ber að fagna en mér finnst nauðsynlegt að grunnskólarnir taki Tjarnarskóla til fyrirmyndar og auki nútímalega kennslu í tónlist í sinni námskrá. Tæknin á þessu sviði er að verða svo aðgengileg og þægileg að ég held að það væri synd að missa af því að örva hæfileikana hjá ungu fólki snemma á þessu sviði. Það er nefnilega engin leið að vita hvar næsti tónlistarsnillingur þjóðarinnar er að fela sig.

Category
UpdatedThursday January 26th 2023, 19:38