Fjölmenning

Mynd: Reykjavíkurkort Söguhrings kvenna, Ráðhús Reykjavíkur

Almenningsbókasöfn eru gátt inn í samfélagið. Allir Reykvíkingar eru í markhópi fjölmenningarlegra verkefna Borgarbókasafnsins. Starfið byggir á þverfaglegu samstarfi við margvíslega aðila í samfélaginu og nær þessvegna út fyrir veggi bókasafnanna. 

Í starfinu er lögð sérstök áhersla á að samspil milli fjölbreyttra menningarheima og tungumála auðgi mannlíf borgarinnar. Allir eiga sér sína sögu hvaðan sem þeir koma. Í fjölmenningarlegu samfélagi er það sameiginlegt verkefni að flétta saman þessar sögur og búa til nýjar í sameiningu. Það er lykilatriði í starfinu að líta á fjölmenningu sem eitthvað sem tengist öllum borgarbúum og að einstaklingar séu ekki álitnir fulltrúar ákveðinna þjóða. Bókasöfn eru miðstöðvar mannlífs og menningar og þess vegna augljós vettvangur fyrir starfsemi sem sameinar fólk. 

Markmið:

•    stuðla að gagnkvæmum skilningi og virðingu og þátttöku í samfélaginu
•    skapa vettvang fyrir menningar – og tungumálamiðlun
•    auka færni innflytjenda í íslensku gegnum raunveruleg og hagnýt samskipti
•    efla tengsl milli allra Reykvíkinga gegnum menningu og listir
•    að heimsókn í menningarhúsum Borgarbókasafnsins verði þáttur í daglegu lífi innflytjenda líkt og annarra borgarbúa.
•    rjúfa einangrun og efla samhygð með náunganum

Borgarbókasafnið hefur yfirlýsingu UNESCO/IFLA um fjölmenningarlegt bókasafn að leiðarljósi í starfsemi sinni.

Kristín R. Vilhjálmsdóttir er verkefnastjóri fjölmenningar á Borgarbókasafni.